Gengið hefur veriðfrá skilnaði poppsöngkonunnar Madonnu og eiginmanns hennar Guy Ritchie að boðri og sæng. Var úrskurður um þetta kveðinn upp fyrir dómi í Lundúnum í dag. Í kjölfarið getur endanlegur skilnaður þeirra átt sér stað eftir sex vikur og einn dag.
Skilnaður hjónanna var einn sautján skilnaða sem staðfestir voru fyrir dómnum í morgun og var hvorugt þeirra viðstatt.
Nokkuð er síðan slitnaði upp úr hjónabandi söngkonunnar sem stendur á fimmtugu og Ritchie. Þau höfðu verið gift í átta ár og eiga saman tvo syni. Þá á Madonna dóttur frá fyrra sambandi.
Samkvæmt heimildum bresku blaðanna Evening Standard og Times of London hafa þau gert með sér samkomulag um skiptingu eigna sinna og um að synirnir Rocco, átta ára, og David, þriggja ára, búi hjá þeim til skiptis í Bretlandi og Bandaríkjunum. Dóttirin Lourdes, tólf ára, mun hins vegar búa alfarið hjá móður sinni í Bandaríkjunum.