Jarðhitann á Íslandi bar á góma þegar bekkjarfélagarnir Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseti, og Gloria Macapagal-Arroyo, forseti Filippseyja, hittust á umhverfisráðstefnu sem Clinton stendur fyrir, Clinton Global Initative (CGI) sem sett var í dag í Hong Kong.
Clinton hældi bekkjarsystur sinni í hástert þegar hann fékk hana á sviðið til sín með þeim orðum að hann skammaðist sín fyrir að segja það en þessi gamli bekkjarfélagi hennar „lítur út fyrir að vera 20 árum yngri en ég, “ sagði Clinton þegar hann kynnti Arroyo. „30 ár væri nær lagi“, bætti hann við þegar þessi skólasystir hans úr Georgetown University birtist á sviðinu.
Í ræðu sinni sagði síðan Arroyo að Filippseyjar væru ekki mikill áhrifavaldur í málum þeim sem lytu að loftslagsbreytingum. Clinton fannst hún hins vegar of hógvær:
„Ég held að vert sé að benda á að Filippseyjar eru í fyrsta sæti yfir ríki sem vinna mesta raforku með jarðhita. Því getur þjóðin verið afar stolt yfir.
„Ísland hefur getu til að gera betur vegna þess að íbúar eru færri og gufustrókar stíga upp frá hverum um allt landið. En Filippseyjar eru lengst komnir allra,“ sagði Clinton.
Hann bætti við að Bandaríkin „hurfu af þessari braut fyrir 20 árum þegar olían var sem ódýrust, því miður.“