Þjóðleikhúsið hættir við tvær sýningar

Kristján Ingimarsson
Kristján Ingimarsson mbl.is/skapti

Þjóðleikhúsið hefur hætt við tvær gestasýningar sem fyrirhugaðar voru í vetur, vegna efnahagsþrenginganna. Annars vegar er um að ræða Creature, látbragðssýningu Kristjáns Ingimarssonar og hins vegar Mysteries of Love 2, nýja danssýningu Ernu Ómarsdóttur.

Í efnahagsþrengingum undanfarinna vikna, er það hrun krónunnar sem hefur haft hvað mest áhrif á starfsemi Þjóðleikhússins, enn sem komið er, skv. upplýsingum frá leikhúsinu. Þjóðleikhúsið hefur leitað ráða til að bregðast við stórauknum kostnaði við þá þætti starfseminnar sem krefjast gjaldeyrisviðskipta en umtalsverður hluti hráefnis við leikmyndir og búninga hefur komið erlendis frá, sem og allur tækjabúnaður.

Hönnuðir og tæknifólk hafa unnið að því að endurskoða áætlanir, með það í huga að reyna að nýta sem mest af hráefni sem þegar er fyrir í landinu.

Einn liður í starfsemi Þjóðleikhússins er samstarf við erlenda listamenn, hópa og stofnanir, enda er slíkt samstarf talið mikilvægt til að beina nýjum og ferskum straumum til landsins, og til að kynna íslenskt leikhús erlendis. Þjóðleikhúsið hafði gert ráð fyrir margbreytilegu samstarfi við erlend leikhús og listamenn á þessu leikári, en laun til erlendra listamanna og aðrar greiðslur í erlendri mynt hafa hækkað mikið, og því telur leikhúsið nauðsynlegt að skera niður í þeim þætti starfseminnar.

Kristján Ingimarsson hefur vakið mikla athygli hér á landi og erlendis fyrir sýningar sínar, meðal annars Frelsarann sem var tilnefndur til Menningarverðlauna DV í leiklist fyrr á þessu ári.

Erna Ómarsdóttir sýndi danssýninguna Mysteries of Love í Þjóðleikhúsinu fyrir tveimur árum, og hlaut hún Grímuverðlaunin fyrir. Til stóð að hún sýndi framhald þeirrar sýningar í Þjóðleikhúsinu í vetur en þegar kostnaður við Creature og Mysteries of Love 2 var áætlaður á sínum tíma var hann um tvöfalt lægri en hann hefði orðið nú, og því sér leikhúsið sér ekki lengur fært að sýna þessar sýningar, segir á heimasíðu Þjóðleikhússsins. Þar segir ennfremur um sýningarnar: „Báðar hefðu þær þó orðið mikilsverð viðbót við verkefnaskrána og aukið framboð á sviðsverkum á fjölum Þjóðleikhússins, og er því mikil eftirsjá að þeim.“

Á heimasíðu leikhússins segir ennfremur: „Einnig var um tíma útlit fyrir að hætta þyrfti við sýningar á Eternum, samstarfsverkefni við listhópinn Fata Morgana sem norski leikstjórinn Reinert Mithassel stýrir og Sædýrasafninu eftir Marie Darrieussecq í leikstjórn Arthur Nauzyciel frá Frakklandi. Eterinn er hugsaður sem nokkurs konar tilraunaverkefni sem unnið er í samvinnu við íslenska leikara, höfunda og tónskáld, þar sem nýjasta tækni leikhússins og möguleikar í margmiðlun væru nýttir til hins ýtrasta. Reinert hefur haslað sér völl sem framúrskarandi leikhúslistamaður á því sviði í Noregi. Eterinn hafði einnig verið settur á dagskrá leiklistarhátíðar í Norska þjóðleikhúsinu í haust, en verkefnið er styrkt af norska menningarmálaráðuneytinu. Sædýrasafnið er samstarfsverkefni Þjóðleikhússins og CDN Orléans, en leikstjóri Sædýrasafnsins, Arthur Nauzyciel, er jafnframt leikhússtjóri þess. Í Sædýrasafninu er teflt saman leikhúslistafólki úr Þjóðleikhúsinu í fremstu röð, íslensku listafólki úr öðrum greinum og erlendum leikhúslistamönnum frá Frakklandi, Ítalíu og Bandaríkjunum. Sædýrasafnið verður sýnt í Frakklandi í maí, og er þegar uppselt á allar sýningar þar. Verkefnið nýtur stuðnings frá CulturesFrance og  franska sendiráðinu.

Erlendu samstarfsaðilarnir við Eterinn og Sædýrasafnið sýndu Þjóðleikhúsinu mikinn skilning á þessum erfiðu tímum, og báðir aðilar komu til móts við leikhúsið með því að taka á sig meiri kostnað, og gera Þjóðleikhúsinu þannig kleift að sýna þessi spennandi verkefni þrátt fyrir yfirstandandi þrengingar í íslensku efnahagslífi. Er það mikið gleðiefni að Þjóðleikhúsið geti staðið við áform sín að sýna þessar sýningar og eins að upplifa þann samhug og stuðning sem þessir erlendu samstarfsaðilar hafa sýnt leikhúsinu.“

Erna Ómarsdóttir
Erna Ómarsdóttir mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar