Þýski leikarinn Horst Tappert, sem er Íslendingum góðu kunnur sem lögregluforinginn Stephan Derrick, er látinn 85 ára að aldri. Frá þessu greinir þýska tímaritið Bunte.
Tappert lést á sjúkrahúsi í München á laugardag er haft eftir eiginkonu leikarans.
Sýningar á þáttunum um Derrick hófust á áttunda áratugnum og voru sýndir allt fram á tíunda áratug síðustu aldar. Derrick leysti sakamál, ásamt félaga sínum Harry Klein, með því að beita rökhugsun í stað valds.
Fyrsti þátturinn sem ríkisstöðin ZDF framleiddi var sýndur árið 1974 og alls hafa þættirnir orðið 281 og þeir verið sýndir í 102 löndum. Þeir voru lagðir af árið 1998.