Rolling Stones-stjarnan Keith Richards verður 65 ára í vikunni. Hann þegir þunnu hljóði um hvaða brjálaða partí hann ætlar að halda til að fagna eftirlaunaaldrinum.
Keith Richards er þjóðsagnakenndur gítarleikari, lagahöfundur og erkitýpa. Hann mun nú ná þeim aldri, sem oftast er kenndur við garðyrkju og golltreyjur, rétt í kjölfar Mick Jagger sem varð 65 ára í júlí.
Talsmaður Richards hefur sagt að afmælisdagurinn á fimmtudaginn verði mjög persónulegur.
Tímaritið Rolling Stone útnefndi Richards sem tíunda besta gítarleikara í heimi. Richards, ætíð úfinn, hefur sýnt furðumikla þrautseigju í misnotkun vímuefna. Sjálfur hefur hann útskýrt það svo að líkami hans sé nokkurskonar rannsóknarstofa. Richards fór í tónleikaferð um heiminn á síðasta ári með Rolling Stones og hélt áfram að spila sína tónlist þrátt fyrir að ímynd hans sem rokkstjörnu hefði beðið nokkurn hnekki efti að hann lék í auglýsingu fyrir ferðatöskuframleiðandann Louis Vuitton.
Þjóðsagan í kringum manninn lifir þó góðu lífi og fékk nýjan byr eftir að Richard féll úr kókoshnetutré á Fidji-eyjum árið 2006 og einnig er sagt að hann hafi tekið ösku föður síns í nös blandaða í kókaín.
Richards fæddist hinn 18. desember 1943 í Dartford, austur af London. Árið 1960 rifjaði hann upp gömul kynni við gamlan skólafélaga, nefnilega Mick Jagger, og ásamt Brian Jones mynduðu þeir hljómsveitina Rolling Stones, sem var nefnd eftir lagi Muddy Waters.
Í viðtali við tímaritið GQ árið 2008 var hann spurður um dans sinn við dauðann í gegnum tíðina. Richards svaraði: „Oft hefði ég getað hrokkið upp af. En það virtist bara vera svo auðveld leið út!“