„Sögusviðið er Reykjavík og fara tökur fram í miðbænum, Breiðholti og víðar,“ segir Hilmar Oddsson kvikmyndagerðarmaður, en tökur á jólamynd hans, Hátíð í bæ, hefjast um helgina.
„Þetta er jólamynd þannig að það þurfa að vera jólaljós í útiatriðunum. Þannig að annaðhvort tökum við þetta núna eða eftir ár,“ segir Hilmar sem er mjög ánægður með jólasnjóinn sem er á götum höfuðborgarinnar um þessar mundir. „Mér skilst reyndar að hann eigi að fara. En auðvitað væri gaman að hafa snjó, þótt maður sé svolítið búinn að mála sig út í horn ef maður byrjar í snjó. Sagan gerist að vísu á tveimur til þremur vikum, þannig að þetta ætti að bjargast. En glíman við veðrið og samhengi milli atriða er oft svolítið vandamál hjá íslenskum kvikmyndagerðarmönnum.“