Aðdáendur bresku sjónvarpsþáttanna Sugar Rush er sýndir eru á Skjá 1 og fjalla um táningslesbíur í Brighton hafa líklegast einhverjir tekið eftir því að eitt helsta þemalag þáttanna er íslenskt. Það er lagið „Youth“ með Ampop er var að finna á hinni geysivinsælu skífu My Delusions. Lagið hljómar ósungið í þáttunum og er spilað í nánast hverjum þætti, eða í hvert skipti er lesbían unga lendir í tilfinningablús, sem hún gerir ítrekað, enda ekki alltaf auðvelt mál að vera hinsegin.
Það er greinilegt að liðsmenn Ampop horfa ekki á þættina, og ekki heldur neinn í kringum þá, því þegar Kjartan Ólafsson hljómborðsleikari var spurður um tilvist lagsins í þættinum kom hann algjörlega af fjöllum.
„Já, er það... eru þetta vinsælir þættir? Ég hafði ekki hugmynd um þetta, þú ert að segja mér fréttir,“ sagði Kjartan hissa. „Þeir hafa örugglega verið svona grófir sem sjá um höfundarréttinn á laginu. Þeir eru djöfulsins ruddar. Höfundarréttarfyrirtækið Outcast gerði samning við okkur vegna smáskífunnar „My Delusions“ þar sem þetta lag fylgdi með.“