Leikskáldið og nóbelsverðlaunahafinn Harold Pinter er látinn. Hann var á 79. aldursári. Greint er frá þessu í breskum fjölmiðlum, en lafði Antonia Fraser, önnur kona Pinters hefur tilkynnt að hann hafi látist í gær eftir erfiða baráttu við krabbamein í hálsi. Hún segir að hann hafi verið frábær og það hafi verið forréttindi að búa með honum í meira en 33 ár. ,,Hann gleymist aldrei,” sagði hún við dagblaðið Guardian.
Pinter hafði ætlað sér að taka við heiðurgráðu frá leiklistarskóla einu í London um þetta leyti, en þurfti að afboða sig vegna veikinda.
Eftirmæli leiklistargagnrýnandans Michael Coveney um Pinter, í viðtali við Sky news eru þau að hann hafi haft mikil áhrif á leiklistarheiminn. Þetta sé sorgardagur fyrir breskt leikhúslíf, þar sem Pinter hafi verið mikill persónuleiki sem veitti fólki innblástur fyrir tryggð og ást. ,,Hann var ótrúlega vinsæll maður, algjör leikhúsmaður og hans arfleifð verður sú að hann verði okkar þekktasta leikskáld.”
Pinter var líka þekktur fyrir vinstrisinnaðar skoðanir sínar á málefnum og var harðvítugur gagnrýnandi á utanríkisstefnu Bandaríkjanna og Bretlands.
Martin Regal skrifaði um Pinter í Lesbók Morgunblaðsins eftir að greint hafði verið frá því að Pinter hlyti bókmenntaverðlaun Nóbels:
„Fyrir vikið skipar Harold Pinter sér í afar þröngan hóp, sem sjötta leikskáldið sem hlotnast Nóbelsverðlaunin frá upphafi og fyrsta breska leikskáldið til að hljóta þann heiður. Fyrsta spurningin sem vaknar er því hvers vegna fær Harold Pinter að feta þennan fáfarna stíg? Hvers vegnar valdi sænska akademían Pinter?
Að sumu leyti er þessu auðsvarað. Að öðru leyti er því vandsvarað. Ekki aðeins er Pinter rómaðasta leikskáld Bretland, hvers ferill og orðspor spannar tæpa hálfa öld, heldur er hann einnig sannfærður friðarsinni og kaus á unga aldri frekar að hætta á fangavist en gegna herþjónustu í breska hernum. Hann hefur verið virkur félagi í Amnesty International um áratuga skeið og upp á síðkastið kappsfullur málsvari andstæðinga Íraksstríðsins og óvæginn gagnrýnandi ríkisstjórna Blairs og Bush. Lá því ekki beint við að velja Pinter?
Óvildarmenn hans myndu tefla gegn þessu sjónarmiði þeim rökum helstum að Pinter hafi ekki samið stórvirki frá því No Man's Land var sýnt árið 1978 (seinasta leikrit hans í fullri lengd) og raunar fátt markvert síðan á níunda áratug liðinnar aldar.
Þessu er torvelt að mæla í mót. Fyrir utan að aðlaga að leiksviðinu kvikmyndahandrit sitt eftir bók Proust, Í leit að glötuðum tíma, er sett var á svið aldamótárið 2000, hefur Pinter á seinustu fimmtán árum einvörðungu samið fjögur stutt leikrit og einn ennþá styttri leikþátt: Party Time (1991), Moonlight (1993), Ashes to Ashes (1996), Celebration (1999) og Press Conference (2002).
Hann hefur að vísu birt ljóð og prósaskrif, sem ég tel alls ekki hafa notið sannmælis, en ég dreg í efa að Nóbelsnefndin hafi verið með þau verk í huga þegar hún ákvað að veita honum verðlaunin. Eru verðlaun þau sem hann hlýtur þá bragarbót, verðlaun fyrir veitta þjónustu, nokkurs konar eftir-á-að-hyggja-viðurkenning á mikilvægi hans sem höfundar?
Hver er gjöf Harolds Pinters til bókmenntanna, eða leiksviðsins, eða heimsins sem ákveður að veita honum þessa viðurkenningu? Sænska akademían útskýrir ákvörðun sína ævinlega á skorinorðan og skilmerkilegan hátt, og þegar tilkynnt var að Pinter hefði orðið fyrir valinu var sagt að "hann afhjúpar [í leikritum sínum] hyldýpið sem leynist bakvið hið daglega hjal og brýtur sér leið inn í lukta kima kúgunar".
Þótt lýsingin sé knöpp er hún snjöll, þar eð hún blandar saman við hina hefðbundnu sýn á verk Pinters - þ.e. að þau afhjúpi hulinn textaheim - nýlegri áhuga hans á ofbeldi og pyntingum.
Hann var að vísu alltaf áhugasamur um hið síðarnefnda. Fyrsta meiriháttar leikrit hans, The Birthday Party (1959), fjallar að mjög miklu leyti um ofbeldi og pyntingar, en það er ekki jafn opinskátt á pólitíska sviðinu og mörg seinni verka hans.
En lýsing Nóbelsakademíunnar minnir okkur einnig á kaldhæðnisleg ummæli Pinters fyrir hálfri öld. Aðspurður um innihald leikrita sinna svaraði hann því til að þau fjölluðu um "hreysiköttinn undir vínskápnum".
Af ýmsum ástæðum virðist Pinter hafa iðrast þessara ummæla síðar meir. Í fyrsta lagi vegna þess að margir lögðu alvöruþrungna merkingu í svarið. Þessari spurningu var oftsinnis varpað fram áður fyrr þar sem þorri fólks (þar á meðal fjöldi leikhúsgagnrýnenda) skildi ekki hvert Pinter var að fara í verkum sínum. Þau virtust öll vera absúrd. Svar Pinters var fyrir vikið mjög í pinterískum anda; í litlu eða engu samhengi við spurninguna.
Þegar fram liðu stundir, og hann hafði tryggt sér öruggan sess, gerðu fræðimenn sér mikinn mat úr þessum ummælum. Þeir héldu því fram að "meistarinn" hefði í raun og veru verið að halda því fram að í "stofum hvers einasta smáborgara leyndist grimmúðleg ógn í þeim felustað sem mönnum myndi seinast hugkvæmst að athuga" - eða eitthvað í þá veru.
Má þá fullyrða að kjarninn í leikritum Harolds Pinters sé "hyldýpið sem leynist bakvið daglegt hjal" og "hreysikötturinn undir vínskápnum"?
Í ofanálag sýndi hann fram á að hið skoplega skaut upp kollinum í hinum óvæntustu kringumstæðum, iðulega í miklu návígi við ofbeldi og þjáningu.
Finna má gott dæmi um bæði þennan misskilning og leikræna notkun á kímnigáfu Pinters í eitt hið örfáu skipta sem hann brást við gagnrýni. Þegar kunnur gagnrýnandi, sem virtist hafa skemmt sér yfir The Birthday Party, lýsti því yfir að leikritið sem fylgdi í kjölfarið, The Caretaker, væri ekki "nógu fyndið" skrifaði Pinter bréfkorn til dagblaðsins The Times. Þar sagði: "The Caretaker er fyndið að vissu marki. Handan þess er verkið ekki fyndið. Og einmitt vegna þessa marks skrifaði ég verkið."