Foreldrar samvöxnu tvíburanna Faith og Hope Williams, sem létust eftir að reynt var að aðskilja þær, segjast sátt við þá ákvörðun sína að berjast fyrir lífi barnanna. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.
Laura Williams, móðir stúlknanna sem er átján ára, segir að þrátt fyrir að annar tvíburinn hafi látist skömmu eftir aðgerðina og hinn um mánuði síðar, telji hún þau hafa gert rétt með því að gefa tvíburunum tækifæri en á meðan hún gekk með börnin ráðlögðu læknar henni ítrekað að fara í fóstureyðingu.
„Þrátt fyrir allt sem hefur gerst tel ég okkur enn hafa gert rétt,” segir hún í viðtali við blaðið Mail on Sunday. „Þær dóu ekki inni í mér eins og fyrsti læknirinn sem ég hitti sagði að þær myndu gera. Þær komust þetta langt. Þyrfti ég að ganga í gegn um þetta allt aftur þá myndi ég gera það. Það er ómögulegt að útskýra hversu erfitt þetta hefur verið en ég vildi samt ekki breyta neinu.”
Eiginmaður hennar, sem er 28 ára, tekur í sama streng. „Fólk tekur ákvarðanir í lífinu og við tókum þá ákvörðun að gefa þeim líf. Við vissum af áhættunni en gáfum þeim tækifæri og það gerðu einnig allir þeir sem aðstoðuðu okkur. Það á bæði við um lækna og hjúkrunarfræðinga og vinir okkar og fjölskyldur sem hafa sýnt okkur mikinn stuðning,” segir hann.
„Ég er á vissan hátt í uppnámi en á sama tíma er ég sáttur, því nú eru þær saman á ný eins og þær voru í upphafi. Það er gott að hún er með systur sinni. Þær eru óhultar núna.”
Fyrir áttu hjónin dótturina Carly.