Óhætt er að segja að Páll Óskar hafi sjaldan verið vinsælli. „Það hafa oft verið læti í kringum mig en aldrei á ævinni hef ég upplifað önnur eins læti í kringum mig og nú og það er fyrst og fremst vegna plötunnar Allt fyrir ástina,“ segir Páll Óskar. Hann segir að allar götur síðan samnefnt lag fór í spilun sumarið 2007 hafi hann haft í nógu að snúast á degi hverjum.
Þegar hringt er í farsíma Páls Óskars heilsar manni talhólf þar sem Páll Óskar segir að hann sé fullbókaður alla laugardaga út árið 2009. „Ég hef nóg að gera. Mig langar helst að skríða í litla holu og leggjast í híði og fara að sofa og kannski fara að skapa meira, gera fleiri lög, semja fleiri texta og dúlla mér því þar er mér rétt lýst, þar nýt ég mín best. Allt fyrir ástina sló svona rækilega í gegn og ég er enn að fylgja því eftir. Þegar kallið kemur ber manni að hlýða því,“ segir hann. „En ég er bara mjög lukkulegur með lífið.“
Má vel við una
Í haust kom út platan Silfursafnið sem hefur að geyma tvo geisladiska og einn dvd-disk. „Ég má vel við una en ég auðvitað, eins og aðrir Íslendingar, fer ekki varhluta af efnahagsástandinu og kreppan kíkti í heimsókn til mín líka,“ segir hann og nefnir að kostnaðurinn við Silfursafnið, sem framleitt var í Austurríki, hafi hækkað um þrjár milljónir á nokkrum mánuðum vegna veikingar krónunnar. Þegar Páll Óskar sá í hvað stefndi lét hann framleiða aukaupplag og þar bættust aðrar óvæntar þrjár milljónir við reikninginn sem rekja mátti til gengishrunsins. Í september voru því til á lager alls 20 þúsund eintök af plötunni. Um miðjan desember var búið að selja rúmlega sex þúsund eintök.
„Afleiðing gengisfallsins er sú að ég þarf að selja tíu þúsund eintök af plötunni til að ná fyrir kostnaði. Ég er heppinn því ég er þó allavega að selja. Ég er bjartsýnn á að ná kostnaði en svo ber mér að líta á allt umfram það sem bónus.“ Páll Óskar segir að tónlistarmaður á Íslandi þurfi því að ná platínusölu til að standa á núlli. „Ég segi bara takk Davíð Oddsson, takk seðlabankastjórn, takk Geir H. Haarde, takk ríkisstjórn og takk útrásarvíkingar. Áfram krónan. Vil gjarnan koma þakklæti til þeirra því ég held ég hafi aldrei upplifað eina þjóð jafnniðurlægða á einu bretti á nokkrum klukkutímum.“