Það vakti athygli á dögunum þegar tilkynnt var í Lögbirtingablaðinu að eignarhaldsfélag sem stofnað var utan um kvikmyndina A Little Trip to Heaven hefði farið í þrot. Á sínum tíma birtust fréttir um velgengni myndarinnar í fjölmiðlum og henni var dreift til rúmlega 40 landa af Catapult, fyrirtæki Sigurjóns Sighvatssonar. Í kjölfarið má spyrja sig hvernig kvikmynd geti farið í þrot en ekki framleiðslufyrirtækið sem stendur að gerð myndarinnar, og í öðru lagi hvort það teljist eðlilegt að stofnað sé félag utan um hverja einstaka kvikmynd sem framleidd er?
Hvað síðarnefndu spurninguna varðar segir í reglum iðnaðarráðuneytisins að framleiðanda sé skylt að stofna félag utan um hvert einstakt verkefni ætli hann að sækja um endurgreiðslu á 14% af framleiðslukostnaði kvikmyndar sem fellur til hér á landi. Geti framleiðandinn hins vegar sýnt fram á það í bókum sínum að 80% af kostnaði hafi runnið til íslenskra aðila, fær hann einnig endurgreiðslu af þeim kostnaði sem rann til evrópskra aðila. Þessar reglur setur iðnaðarráðuneytið til þess að tryggja að peningarnir sem endurgreiddir eru, fari upp í kostnað myndanna en séu ekki notaðir til þess að halda uppi öðrum rekstri framleiðslufyrirtækisins.
Kvikmyndasjóður Íslands veitir svo styrki fyrir allt að 50% af framleiðslukostnaði myndar en afgangsins verða framleiðendur að afla annars staðar. Styrkurinn er greiddur á fyrsta tökudegi til framleiðslufyrirtækisins en ekki til þess fyrirtækis sem utan um myndina er stofnað.
„Það er mjög eðlilegt að eitthvað misheppnist og margt getur farið úrskeiðis,“ útskýrir Ari. „Tekjurnar eru kannski að koma inn á sjö árum og ef þú hefur tekið lán á íslenskum vöxtum þá getur það vaxið svo hratt að þú rétt nærð að halda í vextina.“
Það var einmitt þessi tilraunastarfsemi, að finna fé á nýjum stöðum, er varð myndinni að falli. Eftir að hafa fengið 50 milljóna styrk frá Kvikmyndasjóði Íslands leitaði Baltasar Kormákur og framleiðslufyrirtæki hans Sögn ehf. (Blueyes Productions) á náðir Kaupþings um það sem upp á vantaði.
„Kaupþing var með og hafði upphaflega hugsað sitt framlag sem fjárfestingu,“ segir Baltasar en tekur fram að einungis hafi verið um munnlegt samkomulag að ræða. „Svo breyttust aðstæður og bankinn vildi breyta þessu í lán. Í aðdraganda bankahrunsins hvarf svo þolinmæðin eftir tekjunum og þeir kusu að gjaldfella lánið. Þá var ekkert annað að gera en að setja þetta í þrot,“ segir Baltasar en bankinn hefði að öðrum kosti fengið 50% af öllum hagnaði að lokinni uppgreiðslu lánsins.
Að sögn Baltasars átti hann von á sæmilegum tekjum af myndinni en þær hefðu ekki verið búnar að skila sér á þeim tíma sem bankinn gjaldfelldi lánið. Þó hefði verið búið að ganga frá öllum launagreiðslum.