Breska myndin Slumdog Millionaire vann stærsta sigurinn á 66. Golden Globe verðlaunahátíðinni sem haldin var í Hollywood í nótt. Slumdog Millionaire hlaut fern verðlaun en auk hennar fengu leikararnir Heath Ledger og Kate Winslet veigamikil verðlaun.
Slumdog Millionaire fjallar um munaðarleysingja sem ryður sér leið út úr fátækrahverfum Mumbaí á Indlandi og fara óþekktir leikarar með aðalhlutverkin. Myndin hlaut verðlaun m.a. fyrir bestu leikstjórn Danny Boyle, handrit, tónlist og þykir það veita henni möguleika á Óskarsverðlaunum en þau verða veitt í næsta mánuði.
Heath Ledger, sem lést fyrir ári, hlaut verðlaun fyrir leik í Batman-myndinni The Dark Knight og Kate Winslet hlaut tvenn verðlaun, sem besta leikkona og sem besta leikkona í aðalhlutverki, í myndinni Revolutionary Road. Þá vann Mickey Rourke til verðlauna fyrir leik í myndinni The Wrestler.
Mikill stjörnufans var á hátíðinni og þar mátti m.a. sjá Brad Pitt, Tom Cruise, Angelina Jolie og Leonardo DiCaprio.