Breski tónlistarmaðurinn Morrissey íhugar að hætta í tónlist. Morrissey, sem áður var söngvari hljómsveitarinnar Smiths, segist gera sér grein fyrir því að ferillinn endist ekki að eilífu og hann íhugi að hætta áður en hann missi virðingu sína í tónlistarheiminum. Morrissey, sem hélt tónleika í Laugardalshöllinni í ágúst 2006, hefur verið virkur í tónlist í 26 ár.
Í viðtali við Filter tímaritið segir Morrissey að hann hafi í raun ekki áhuga á að halda áfram í tónlistinni mikið lengur. Það komi að þeim tímapunkti sem þú hefur gert nóg. Það er því hver að verða síðastur til þess að sjá goðið koma fram á tónleikum en hann hyggur á tónleikaferðalag í maí. Nýr hljómdiskur er væntanlegur frá Morrissey þann 16. febrúar og nefnist hann Years of Refusal.