Geir H. Haarde forsætisráðherra var viðmælandi Bubba Morthens á Rás 2 á mánudagskvöld í þætti Bubba, Færibandinu. Bubbi byrjaði af miklum móð og krafði Geir svara við þeim spurningum sem höfðu greinilega brunnið á alþýðuhetjunni.
Geir varðist sumu fimlega og útskýrði annað vel en eftir því sem á leið var eins og Bubbi yrði bljúgur. Áður en hlustendur vissu af voru þeir félagar byrjaðir að ræða um Johnny Cash og stuttu seinna var Bubbi búinn að lýsa því yfir að Tom Jones væri besti dægurlagasöngvari allra tíma, hvorki meira né minna.
Hápunktur þáttarins var hins vegar þegar Bubbi spurði Geir hvort það mætti ekki líkja ríkisstjórninni við bílstjóra sem er stöðvaður af lögreglunni fyrir að keyra glæfralega. Við skoðun kemur í ljós að bílstjórinn er sauðdrukkinn en þrátt fyrir fortölur lögreglunnar tekur hann það ekki í mál að stíga út úr bílnum – hann telur það ábyrgðarhlutverk að fá að keyra alla leið heim.
Ætti það ekki að koma neinum á óvart að Geir var ekki tilbúinn til að skrifa upp á samlíkinguna.