Því er spáð, að nýtt lyf sem gerir það að verkum að augnhár vaxa hraðar og þykkjast, muni slá í gegn á næstu árum. Lyfið er framleitt af fyrirtækinu Allergan sem einnig framleiðir hrukkubanann Botox.
Fyrirtækið áformar að setja lyfið Latisse á markað innan skamms. Lyfið byggir á sömu formúlu og lyf, sem framleitt er við augnsjúkdómnum gláku en það dregur úr þrýstingi í augasteini. Það lyf hefur hins vegar þær aukaverkanir að augnhár sjúklinga fara að vaxa og þær aukaverkanir eru nýttar í nýja lyfinu.
Blaðið International Herald Tribune segir, að sumir sérfræðingar óttist að þeir sem noti nýja lyfið muni finna fyrir öðrum og ekki eins heppilegum aukaverkunum glákulyfsins á borð við sviða og litarbreytingar á augnlokum. Aðrir velta því fyrir sér hvort fólk sé tilbúið til að greiða jafnvirði 15 þúsund króna á mánuði til að fá lengri augnhár.
En aðrir sérfræðingar spá því, að Latisse muni slá í gegn á snyrtivörumarkaði. Talið er að sala á augnháralit í heiminum nemi um 5 milljörðum dala árlega, jafnvirði 640 milljarða króna. Þannig gætu tekjur af sölu Latisse numið um hálfum milljarði dala á ári innan ekki langs tíma.