Þýskir kvikmyndagagnrýndur eru ekki ýkja hrifnir af túlkun Tom Cruise sem Claus von Stauffenberg, sem gerði tilraun til að ráða Adolf Hitler af dögum árið 1944. Í rauninni má segja að þeir hafi tætt Cruise í sig. Þeir fagna því hins vegar að Hollywood hafi ákveðið að gera kvikmynd um þýska hetju.
Margir Þjóðverjar hafa beðið í ofvæningi eftir kvikmyndinni Valkyrie, ekki hvað síst vegna þess að Stauffenberg er goðsögn í landinu.
Flestir gagnrýndur segjast ekki hafa ekki gert miklar væntingar til Cruise í hlutverki Stauffenbergs. Þeir fáu sem það gerðu segjast hafa orðið fyrir vonbrigðum.
„Flatur“ og „svipbrigðalaus“ er á meðal þeirra orða sem gagnrýnandi dagblaðsins Tagesspiegel notar.
Myndin hefur fengið blendin viðbrögð meðal gagnrýnenda í Bandaríkjunum, en henni hefur hins vegar vegnað alveg ágætlega í miðasölunni. Hún hefur alls þénað um 72 milljónir dala frá því hún var frumsýnd í síðasta mánuði.