Ilham Anas hefur öðlast frægð í heimalandi sínu Indónesíu og fengið ótal viðskiptatilboð út á útlitið. Honum þykir svipa mjög til verðandi forseta Bandaríkjanna, Barack Obama og er nú einnig að öðlast frægð utan heimalandsins vegna þess. Anas ætlar að nýta sér útlitið og taka öllum siðsamlegum tækifærum sem kunna að bjóðast.
Nú þegar hefur Anas fengið tilboð frá filippseysku lyfjafyrirtæki auk tilboða frá indónesískum og suður-kóreskum fyrirtækjum. Þá kemur Anas fram í vinsælum indónesískum spjallþætti seinna í dag, á sama tíma og Barack sver embættiseiðinn.
Það var bróðir Anasar sem fyrstur tók eftir líkindunum en vinnufélagar hans á táningablaðinu, þar sem Anas starfar sem ljósmyndari, báðu hann fyrstir að sitja fyrir í jakkafötum og með bandaríska fánann.