Grallaraspóarnir og teiknimyndafígúrurnar vinsælu Tommi og Jenni munu brátt snúa aftur á hvíta tjaldið í leikinni teiknimynd. Íslendingar þekkja ævintýri þeirra félaga vel, en þeir voru sýndir í íslensku sjónvarpi um árabil. Fyrstu teiknimyndirnar um þá félaga voru gerðar á fimmta áratug síðustu aldar.
Tommi og Jenni munu fylgja í fótspor Scooby-Doo, sem kemur einnig úr smiðju Hanna-Barbera, en leikin bíómynd var gerð um hundinn árið 2002. Í myndinni léku lifandi leikarar á móti tölvuteiknuðum Scooby-Doo.
Myndin og framhald hennar frá árinu 2004, Monsters Unleashed, þénuðu um 460 milljónir dala í kvikmyndahúsum á heimsvísu.
Kvikmyndatímaritið Variety segir að nýja myndin um köttinn Tomma og músina Jenna muni fjalla um það hvernig þeir kynntust og af hverju þeir urðu óvinir.