Það er eflaust mörgum gleðifregn að heyra að hjartaknúsarinn George Clooney hefur samþykkt að snúa aftur í sjónvarpsþáttinn sem kom frægðarferli hans á koppinn: ER eða Bráðavaktina eins og við könnumst við hana upp á íslensku.
Einn meðframleiðandi Bráðavaktarinnar, John Wells, hefur skipað starfsliði þáttanna að halda framkomu Clooneys í þáttunum leyndri. Því er ekki vitað hvað hann á að koma fram í mörgum þáttum í lokaseríu þáttaraðarinnar.
Clooney kom seinast fram sem dr. Doug Ross í Bráðavaktinni árið 2000 þar sem hann sást í atriði með fyrrverandi kærustu Ross, Juliana Marguilies. Hann er frægasti leikari Bráðavaktarinnar og hefur Wells alltaf viljað láta hann snúa til baka í seinustu seríu þáttanna. En fimmtánda þáttaröð Bráðavaktarinnar var lengd um fjóra þætti í seinustu viku.
Fjórtánda þáttaröð Bráðavaktarinnar er nú sýnd í Sjónvarpinu.