Bandaríska söngkonan Mariah Carey reiddist mjög þegar í ljós kom að hún fékk ekki að sitja hjá fjölskyldu Baracks Obama við embættistöku hans í Washington í síðustu viku. Carey kom fram á dansleik sem haldinn var í tilefni af embættistökunni, og bjóst við að fá að sitja hjá fjölskyldu forsetans nýja í staðinn. Hún varð þó að gera sér að góðu að sitja hjá öðrum stjörnum á borð við Jon Bon Jovi, Mary J. Blige, Aliciu Keys og Bruce Springsteen, og eftir athöfnina yfirgaf hún svæðið í fússi.
Önnur stjarna, rapparinn P. Diddy, var ekki heldur fyllilega sáttur við embættistökuna. Diddy, sem hefur lýst mikilli ánægju með að Obama hafi verið kjörinn forseti fyrstur blökkumanna, sendi nýja forsetanum að vísu fingurkossa, en lét hafa eftir sér að hann væri ekki ánægður með að hafa ekki verið beðinn um að koma fram við athöfnina, heldur rapparinn Jay-Z.