Playboy-karlakvöldi Ömmu Habbý í félagsheimlinu í Súðavík sem halda átti um síðustu helgi hefur verið frestað fram í mars. Rúmlega fimmtíu karlmenn höfðu bókað sig á kvöldið en smám saman fóru þeir að afpanta bókanir sínar og sá þá María Hrafnhildardóttir, skipuleggjandi og eigandi Ömmu Habbý, sig knúna til að fresta kvöldinu vegna messufalls.
„Ég held að karlarnir hafi ekki fengið útivistarleyfi þetta kvöld. Ég var komin með 50 manns á skrá og svo fóru konur að hringja og spyrja hvort það yrði strip-show á kvöldinu og ég sagði þeim að það yrði nærfatasýning og þar sæist smá hold enda er þetta Playboy-karlakvöld. Konurnar pöntuðu fyrir karlana sína og það var mikið spurt hvort að ungar konur myndu sýna nærföt og ég sagði þeim að það yrðu allavega ekki 100 ára gamlar konur. Ef þetta hefði verið konukvöld þá hefði verið fullt,“ segir María í samtali við Bæjarins besta og segir karlana hafa haft mikinn áhuga á kvöldinu.