Fregnir herma að breski tónlistarmaðurinn David Bowie íhugi nú að endurvekja alter-egó sitt, Ziggy Stardust. Bowie mun nú eiga í viðræðum við skipuleggjendur Coachella-tónlistarhátíðarinnar í Kaliforníu, en þeir leggja hart að honum að endurvekja hinn magnaða karakter og flytja plötuna The Rise and Fall of Ziggy Stardust and The Spiders From Mars í heild sinni á hátíðinni.
Bowie, sem er 62 ára gamall, „drap“ Ziggy Stardust með eftirminnilegum hætti á tónleikum í Lundúnum árið 1973, og hefur ekki endurlífgað hann síðan.
Lítið hefur annars heyrst frá Bowie síðan 2004 þegar hann þurfti að hætta við tónleikaferðalag í kjölfar hjartsláttartruflana. Þó hafa borist að því fregnir að hann vinni að nýju efni um þessar mundir.