Það var gott hljóðið í útgerðarmanninum Henning Jóhannessyni þar sem hann stóð á Grímseyjarbryggju og tók á móti tveimur bátum sínum, þegar fréttaritara Morgunblaðsins bar að garði.
Synir Hennings þeir Jóhannes Gísli og Sigurður eru skipstjórar á Birni EA 220 og Gyðu Jónsdóttur EA 20 sem báðir eru stórir og glæsilegir plastbátar. Henning Henningsson, þriðji sonurinn stýrir landverkuninni hjá Fiskmarkaðnum.
Henning Jóhannesson sagði að það hefði gjörbreytt öllu að fá helming kvótaskerðingarinnar til baka. „Þetta hefur svo góð áhrif á huga og sál,“ sagði þessi mikli sjómaður og bætti við: „tíðarfarið í janúar hefur verið gott - margir góðir róðrardagar og fínasti afli af blönduðum fiski.“
Hann sagði þetta fylla þá feðga bjartsýni og ekki veitti af eftir allan bölmóðinn í vetur. „Nú hendir maður öllum leiðindum á bak við sig og horfir fram og upp. Meira segja hefur verið svo létt í mér að ég hef verið að spá í grásleppunet og það hef ég ekki gert til margra ára,“ sagði útgerðarmaðurinn Henning Jóhannesson að lokum í samtali við fréttaritara Morgunblaðsins, og hélt glaðbeittur áfram við störf sín á bryggjunni.