Mikið gekk á á tónleikum hljómsveitarinnar Hrauns á Café Rósenberg á laugardagskvöldið, svo mikið að framtíð hljómsveitarinnar er jafnvel talin í hættu. Tveir meðlimir hljómsveitarinnar munu hafa misst stjórn á skapi sínu eftir að rándýrt mandólín brotnaði, og í kjölfarið upphófst hávaðarifrildi í eldhúsi skemmtistaðarins þar sem einhverjir meðlima sveitarinnar munu hafa verið á því að leysa hana upp.
„Ég er ekki alveg búinn að átta mig á því hvað gerðist. Ég stóð þarna eins og illa gerður hlutur. Við áttum þarna svolítið Amy Winehouse-móment,“ segir Jón Geir Jóhannsson, trommuleikari sveitarinnar. „Mín afstaða er að svona hlutir eigi að kólna áður en maður fer að tjá sig um þá,“ segir Svavar Knútur Kristinsson söngvari.