Aðeins þremur vikum áður en gera má ráð fyrir að Heath heitinn Ledger verði sæmdur Óskarsverðlaununum fyrir leik sinn í The Dark Knight hefur dóttir hans Matilda haft sigur í málaferlum sem færir henni verulegar fjárhæðir vegna 10 milljóna dala líftryggingar sem Ledger hafði tekið.
Lögfræðingurinn William Shernoff sem fór með málið fyrir Matilda, sem er 3ja ára, skýrði frá því að tryggingafélagið ReliaStar Life Insurance Company hefði fallist á sættir í máli sem höfðað var fyrir hönd dótturinnar á síðasta ári.
Í málinu var því haldið fram að líftryggingafélagið hefði neitað að standa við líftrygginguna af þeirri ástæðu að orsökin fyrir dauða Ledger gæti hafa verið sjálfsvíg. Lögmaðurinn segir efnisatriði sáttanna trúnaðarmál en báðir aðilar telja sig geta vel við unað. Hann vildi ekki segja nákvæmalega hversu há fjárhæð kæmi í hlut Matilda og bar við trúnaði.
Ledger sem er e.t.v. kunnastur fyrir leik sinn í Brokeback Mountain frá árinu 2005, þar sem hann lék samkynhneigðan kúreka, tók líftryggingu að fjárhæð 10 milljónir dala árið 2007 og gerði dóttur sína að einkaerfingja.
Ástralski leikarinn lést 22. janúar á síðasta ári eftir að hafa tekið inn banvæna blöndu af verkalyfjum og svefnlyfjum. Að lokinni krufningu í New York var dánarorsök sögð hafa verið sú að Ledger hefði tekið inn of stóran skammt lyfja fyrir slysni þrátt fyrir þrálátan orðróm um að leikarinn hefði svipt sig lífi.
Þrátt fyrir þennan úrskurð réttarlækna ákvað tryggingarfélagið að rannsaka dánarorsökina upp á eigin spýtur. Tryggingafélög geta komist að sjálfstæðri niðurstöðu hvað sem líður lögum eða áliti réttarlækna, og sé sjálfsvíg talin ástæðan falla bætur niður.
Talið er að dómstóll í Los Angeles muni staðfesta dómssáttina 23. febrúar eða daginn eftir Óskarsverðlaunahátíðina.