John Stevenson, sem leikstýrði teiknimyndinni Kung Fu Panda, er sagður ætla leikstýra leikinni kvikmynd um teiknimyndahetjuna Garp (e. He-Man), sem naut mikilla vinsælda á níunda áratug síðustu aldar.
Hasarmyndaframleiðandinn Joel Silver er sagður taka þátt í gerð myndarinnar ásamt Warner Brothers og leikfangafyrirtækinu Mattel, að því er bandaríska kvikmyndatímaritið Variety segir.
He-Man fjallar um prins sem breytist í stríðsmann sem verndar plánetuna Eternia ásamt félögum sínum.
Þetta er ekki fyrsta kvikmyndin um Garp, því árið 1987 var búinn til kvikmynd með sænska tröllinu Dolph Lundgren í aðalhlutverki. Frank Langella, sem er tilnefndur til Óskarsverðlauna í ár fyrir leik sinn í kvikmyndinni Frost/Nixon, lék illmennið Skeletor.
Myndinni gekk afar illa í miðasölunni og var tilnefnd til Razzie-verðlauna, sem eru veitt árlega fyrir verstu kvikmyndir ársins.