„Við sjáum um brúðkaup fyrir útlendinga um það bil aðra hverja viku núna yfir vetrartímann því það eru margir sem vilja „hvítt brúðkaup“. Þetta er býsna spennandi og nýtt fyrir okkur,“ segir Björn Erikson, hótelstjóri á Hótel Rangá á Suðurlandi. Undanfarin misseri hefur það færst mjög í vöxt að erlend pör, aðallega frá Bretlandi, óski eftir því að hótelið sjái um undirbúning brúðkaups þeirra hér á landi.
Björn segir hótelið í samstarfi við nokkrar ferðaskrifstofur í Bretlandi um að kynna landið og hótelið sem góðan kost til brúðkaupshalds á framandi slóðum. „Fyrir tveimur árum vorum við þátttakendur í keppni á GMTV-sjónvarpsstöðinni sem er með útbreiddasta morgunþátt í Evrópu. Þar vorum við kosin annað besta brúðkaupshótelið í heimi og eftir það höfum við fengið fjölmörg brúðhjón hingað til okkar.“
Að sögn Björns gifta flest hjónin sig í Oddakirkju þar sem sóknarpresturinn, séra Guðbjörg Arnardóttir, sér um vígsluna. „Þetta er hefðbundin íslensk sveitakirkja með ríka sögu, enda bæði heimili Sæmundar fróða og fæðingarstaður Snorra Sturlusonar. En það hefur líka færst í vöxt að við undirbúum borgaralegar vígslur, sem fara þá fram á ýmsum stöðum, s.s. við Skógafoss, Seljalandsfoss og Tungufoss í Rangá.“Eftir vígsluna efna gestirnir gjarnan til veislu á hótelinu, séu gestir í föruneyti þeirra, en að sögn Björns hafa þeir flestir verið 30 talsins. „Stundum koma brúðhjónin einsömul til okkar, en við getum tekið á móti allt að 100 manns.“ Flest skipuleggja brúðhjónin ýmsa viðburði í tengslum við brúðkaupið, fara t.d. á vélsleða, hestbak, í þyrluflug, golf eða dagsferð til Vestmannaeyja, svo eitthvað sé nefnt.