Tónlistarmaðurinn Gary Barlow, sem er hvað þekktastur sem forsprakki drengjasveitarinnar Take That, hefur verið valinn besti breski lagahöfundur allra tíma. Þar með sló Barlow við goðsögnum á borð við John Lennon og Paul McCartney. Það var rannsóknarfyrirtækið Onepoll sem gerði könnunina, en úrtakið var 3.000 manns.
Fjölmörg laga Barlows hafa náð á toppinn í Bretlandi, en þar á meðal eru lög Take That á borð við „Pray“, „Back for Good“ og „Patience“. Þá hefur hann einnig samið töluvert af lögum fyrir aðra flytjendur, svo sem Charlotte Church og strákabandið Blue.