Poppsöngkonan Britney Spears hefur farið fram á nálgunarbann yfir fyrrverandi unnusta sínum annars vegar og gömlum umboðsmanni sínum hins vegar.
Þá ber það til tíðinda úr menningarlífinu vestanhafs að sjónvarpsstöðin CBS hyggst hleypa af stokkunum raunveruleikasjónvarpsþætti þar sem einhleypir þátttakendur verða settir í þá skemmtilegu stöðu að ganga í fyrirframákveðið hjónaband, sem svo er kallað, þegar makinn er valinn af öðrum.
Af öðru má nefna að kvikmyndin Kung Fu Panda sópaði til sín verðlaunum á stórri teiknimyndahátíð. Fór Disney tómhent frá hátíðinni.
Að lokum eru í dag liðin 50 ár frá dauða rokkarans Buddy Holly og hefur enn eitt lagasafn með meistaranum, sem var skírður Charles Hardin Holley, verið gefið út af því tilefni.