„Þetta gekk rosalega vel, og myndirnar sem voru teknar voru mjög flottar,“ segir Magnea Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Bláa lónsins, um myndatöku fyrir breska sjónvarpsþáttinn Britain's Next Top Model sem fór fram í lóninu á mánudaginn. „Þeim fannst öllum rosalega gaman að koma til Íslands, og fyrirsæturnar töluðu um að þær langaði til að koma aftur til Íslands í frí,“ segir Magnea, en alls var um 15 fyrirsætur að ræða. „Þær voru mjög fallega klæddar og flott málaðar þannig að það var svolítið ævintýralegt yfirbragð yfir tökunum. Þær voru ekki ofan í lóninu sjálfu í tökum, heldur í svona smá garði. En það mátti sjá blátt vatnið og hraun í bakgrunni, svona villta náttúru.“
Aðspurð segir Magnea að dagskráin á mánudaginn hafi verið stíf. „Þær voru mættar 5:30 um morguninn og fóru ekki fyrr en á milli sex og sjö um kvöldið. Það er greinilega verið að undirbúa þær undir fyrirsætulífið. Um kvöldið átti svo að taka viðtöl við þær, en það var meira svona stúdíó-tengt,“ segir Magnea, en hópurinn fór svo af landi brott í gær.
Þátturinn verður sýndur í Bretlandi í vor og að sögn Magneu er hún viss um að hann muni virka sem mjög góð landkynning. „Það er mín tilfinning að það sé kannski markhópur í yngri kantinum sem horfir á þáttinn, sem er einmitt fólkið sem ferðast mjög mikið,“ segir hún.