Ómar Ragnarsson: „Skelfileg lífsreynsla“

Ómar Ragnarsson
Ómar Ragnarsson Ragnar Axelsson

Fréttin hér á mbl.is í gær um bandaríska piltinn sem fór í sitt fyrsta fallhlífarstökk með látnum leiðbeinanda verður Ómari Ragnarssyni tilefni til að rifja upp þegar hann varð fyrsti farþeginn í loftbelgsflugi á Íslandi 1976 - með skelfilegum hætti.

„Atvikið þegar nemandinn í fallhlífarstökkinu lenti með deyjandi leiðbeinanda vekur vondar minningar í huga mér.

Ég varð fyrsti farþeginn í loftbelgsflugi á Íslandi 1976 á skelfilegan hátt. Vindurinn var allt of mikill og flugstjórinn sem stóð í körfunni sagði mér að halda henni fastri ásamt aðstoðarmönnum á meðan hann kynti loftbelginn með heitu lofti svo að loftbelgurinn reis smám saman skáhallt upp í loftið vegna vindsins.

Þá hrópaði flugstjórinn: „Þegar ég segi: Sleppa!, - eiga allir að sleppa nema Ómar. Þú heldur takinu, Ómar, og klifrar um borð."

Um leið og allir slepptu nema ég fóru loftbelgurinn og karfan neðan í honum á fleygiferð eftir túninu á Álftanesi, sem við vorum á. Ég komst ekki um borð en hékk á körfunni.

Karfan endasentist eftir túninu með mig hangandi utan á henni og fór í gegnum girðingu og grjót við Álftanesveginn. Bæði stígvélin mín urðu eftir í girðingunni.

Karfan fór síðan á fleygiferð yfir Álftanesveginn og í gegnum urð og aðra girðingu þar. Enn hékk ég utan á henni. Það var búið að tilkynna fjölmiðlunum það að þetta yrði fyrsta loftbelgsflug með farþega á Íslandi.

Þá loksins lyftust belgurinn og karfan frá jörðu með mig enn hangandi utan á körfunni. Skyndilega áttaði ég mig á því að ég myndi ekki komast upp í körfuna heldur hanga bjargarlaus utan á henni, nema að flugstjórinn kæmi mér til bjargar.

Ég hafði búist við að flugstjórinn hjálpaði mér en hann var greinilega búinn að gleyma mér eða afskrifa mig og kynti gashitatækið eins og óður væri. Hávaðinn í gastækinu var svo mikill að hann heyrði ekki hróp mín.

Þá kom eitt skelfilegasta augnablikið í lífi mínu þegar ég sá jörðina fjarlægjast þegar belgurinn þeyttist upp á við og áttaði mig á því að ég gæti ekki haldið takinu miklu lengur.

Til allrar hamingju kom niðurstreymi og belgurinn lækkaði flugið á ný en þá tók við önnur skelfing: Karfan byrjaði að snúast og á tímabili virtist svo sem ég yrði öfugu megin á henni, miðað við stefnu belgsins undan vindinum, og að hún myndi skella þannig á jörðinni að hún kremdi mig undir sér.

Enn var heppnin yfir mér. Karfan skall í jörðina eftir að hafa snúist í heilan hring og ég missti takið, losnaði frá henni og kútveltist í móanum.

Nokkrir blaðamenn urðu vitni að þessum ósköpum og voru fegnir að sjá mig koma haltrandi til baka á sokkaleistunum með blóðuga fætur eftir grjót og gaddavír. Ég er enn með ör á hægri fæti eftir þessar hrakfarir.

Ekki var til setunnar boðið, heldur þeyst af stað og farið á eftir belgnum í flugvél. Endalok ferðar belgsins urðu þær að hann flaug á háspennulínu í Melasveit, hálfbrann og skall niður á tún um leið og hann kortslúttaði sveitinni!

Flugstjórinn marðist en slapp óbrotinn.

Eftir á fékk ég þær upplýsingar að svona loftbelg, sem lyft er af heitu lofti, megi ekki taka á loft nema mest 3-4 hnúta vindi. Vindurinn í flugtakinu á Álftanesi var hins vegar 25-30 hnútar!“

Blogg Ómars


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar