Grallaraspóarnir í hljómsveitinni Spinal Tap eru nú í hljóðveri til að taka upp nýtt efni - í fyrsta sinn í 20 ár. Sveitin, sem gerir óspart grín að breskum þungarokkssveitum, er hugarfóstur bandarísku leikaranna Michael McKean, Harry Shearer og Christopher Guest.
Rokkararnir litu fyrst dagsins í ljós í grín heimildarmyndinni This Is Spinal Tap frá árinu 1984. Tvær plötur fylgdu í kjölfarið.
Shearer, sem talar inn á Simpsons-teiknimyndirnar, sagði í samtali við BBC 5 að hægt verði að hala niður lögunum á netinu, auk þess sem hægt verði að kaupa tónlistina með hefðbundnum hætti síðar á þessu ári.
Síðasta plata Spinal Tap, Break Like The Wind, kom út árið 1992.
Hljómsveitin kom saman fyrir tveimur árum til að halda tónleika á Live Earth-tónleikunum á Wembley í London.