Bandaríska rokksveitin The Killers á ennþá vinsælasta lag á Íslandi, hið nokkuð umdeilda „Human“. Lagið hefur hlotið töluverða gagnrýni, ekki eingöngu fyrir að þykja hreinlega leiðinlegt, heldur einnig fyrir afar sérstakan texta. Sumir halda því fram að textinn sé einfaldlega málfræðilega rangur, og þá sérstaklega línan „are we human or are we dancer?“ sem mörgum þykir auk þess ekki ganga upp, innihaldslega séð.
Annars gera Chris Martin og félagar hans í Coldplay harða hríð að Bandaríkjamönnunum með nýjasta smáskífulaginu af hinni stórgóðu plötu Viva la Vida or Death and All His Friends. Þar er á ferðinni fyrsta lag plötunnar, „Life in Technicolor II“. Ef fram heldur sem horfir verður lagið orðið það vinsælasta á Íslandi innan fárra vikna.
Annars vekur innkoma írsku hljómsveitarinnar U2 gríðarlega athygli, en Bono og félagar stökkva beint í tólfta sætið með „Get on Your Boots“. Þar er á ferðinni fyrsta smáskífulagið af næstu plötu sveitarinnar, No Line on the Horizon sem er væntanleg í verslanir um næstu mánaðamót. Í ljósi þess að U2 er ein allra vinsælasta hljómsveit heims verður að teljast líklegt að lagið komist mun ofar á lagalistanum, og jafnvel á toppinn.
Páll Óskar enn vinsælastur
Þrátt fyrir þær gríðarlegu breytingar sem hafa orðið í þjóðfélaginu á undanförnum vikum virðist tónlistarsmekkur Íslendinga haldast eins, hvað sem tautar og raular. Þannig er Páll Óskar Hjálmtýsson ennþá vinsælasti tónlistarmaður landsins því Silfursafnið er ennþá mest selda plata á Íslandi. Palli fær þó samkeppni úr pínulítið óvæntri átt því hljómsveitin Sigur Rós stekkur upp um fjögur sæti milli vikna, fer úr sjötta í annað sætið með hina stórgóðu Með suð í eyrum við spilum endalaust. Afar litlu munaði að Sigur Rós næði efsta sætinu af Palla, og spurning hvað gerist í næstu viku.
Þá taka þær stöllur Lay Low og Emilíana Torrini báðar stór stökk á milli vikna, og koma sér fyrir í öðru og þriðja sætinu. Svo skemmtilega vill til að þær eru nú saman á tónleikaferðalagi um Evrópu, þar sem Lay Low hitar upp fyrir Emilíönu.
Gamli bárujárnsrokkarinn Bruce Springsteen kemur ferskur inn í fimmta sætið með sína nýjustu afurð, Working On A Dream. Eflaust sáu margir Brúsa í leikhléi í úrslitaleik ameríska fótboltans á sunnudaginn, og stukku í kjölfarið út í næstu plötubúð og nældu sér í eintak af nýju plötunni.
Loks vekur stórt stökk FM Belfast athygli, úr 25. í 9. sætið.