„Það er nú sagt að Paul McCartney sé í hljóðveri þrjá til fjóra daga í hverri viku. Það er nú kannski ekki eins gott hjá mér, en maður reynir að halda sig við efnið eftir föngum. Þetta er mitt fag, að semja og fremja,“ segir tónlistarmaðurinn Jakob Frímann Magnússon þegar hann er spurður út í orðróm þess efnis að hann verji töluverðum tíma í hljóðveri þessa dagana. „Bæði er ég að vinna í eigin verkefni, ég gef alltaf öðru hverju út svona „instrumental“ plötur. En svo er ég náttúrlega með hljómsveit allra landsmanna sem hefur verið að taka upp í Stúdíó Sýrlandi, og það er verið að vinna í þeim efniviði,“ segir Jakob sem á þar að sjálfsögðu við Stuðmenn.
„Við erum að vinna nýtt efni og það lofar góðu. Við erum búin að taka upp einhver fimm eða sex lög og það er eitthvað annað eins sem vantar upp á,“ segir Jakob og bætir við að von sé á plötu frá sveitinni síðar á þessu ári.
Töluverðar mannabreytingar hafa orðið á Stuðmönnum að undanförnu og því liggur beinast við að spyrja hvernig sveitin sé skipuð í hljóðverinu. „Það er ég, Tómas, Ásgeir og Eyþór, og svo er Ómar Guðjónsson gítarleikari með okkur. Svo er Jónsi náttúrlega með okkur, auk þess sem hinir og þessir söngvarar og söngkonur koma að þessu með okkur, alveg eins og á Sumar á Sýrlandi. Á þeirri plötu einni komu einhverjir átta söngvarar við sögu,“ segir Jakob sem vill þó lítið láta uppi um hvaða gestasöngvarar munu koma fram á nýju plötunni að svo stöddu.