Langaði í eitt barn enn

Nadya Suleman ræðir við Ann Curry, fréttamann NBC sjónvarprsstöðvarinnar.
Nadya Suleman ræðir við Ann Curry, fréttamann NBC sjónvarprsstöðvarinnar. AP

Bandarísk 33 ára gömul fjórtán barna móðir upplýsti í sjónvarpsviðtali að hún hafi eignast öll börnin eftir að frjóvguðum fósturvísum var komið fyrir í legi hennar. Konan, sem eignaðist nýlega áttbura, er einstæð og býr hjá foreldrum sínum með börnin. Þá er hún öryrki eftir vinnuslys.

Konan, sem heitir Nadya Suleman, hefur veitt bandarísku sjónvarpsstöðinni NBC viðtal, það fyrsta eftir að áttburarnir fæddust. Í viðtalinu segir Suleman, að hún hafi verið einmana sem barn og alltaf dreymt um að eignast mörg börn. 

Börnin létu hins vegar bíða eftir sér en hún fékk fyrsta af þremur utanlegsfóstrum árið 1995. Ári síðar gifti hún sig og fékk vinnu sem aðstoðarmaður á geðsjúkrahúsi. Þar lenti hún í átökum við sjúkling og hlaut bakmeiðsli, sem ollu því að hún hefur verið óvinnufær síðan. 

Suleman sagðist hafa fyllst þunglyndi vegna þessa alls og íhugað sjálfsmorð. Árið 2000 skildi hún við eiginmann sinn en reyndi áfram að eignast börn. Það tókst loks með aðstoð tæknifrjóvgunar.

„Þetta var það dásamlegasta, ótrúlegasta sem til þessa hafði gerst í lífi mínu. Ég hugsaði stöðugt að þetta væri of gott til að vera satt. Þegar maður hefur upplifað svo mörg fósturlát heldur maður að það þurfi kraftaverk til," segir Suleman í viðtalinu, sem sjónvarpsstöðin hefur birt kafla úr.

Fram kemur þar að Suleman þjáðist af þunglyndi meðan hún gekk með fyrsta barnið og eftir að það fæddist óttaðist hún að það yrði hennar eina barn. 

„Og þess vegna hélt ég áfram að fara þangað (í frjósemismeðferð)" segir Suleman í viðtalinu.

Á næstu árum eignaðist hún fimm börn til viðbótar, þar á meðal tvenna tvíbura. NBC segir, að sæðisgjafinn hafi alltaf verið sami maðurinn.

Á síðasta ári sagði Suleman við móður sína, að hún ætlaði að eignast eina stúlku til viðbótar. Hún fékk því til leiðar, að sex fósturvísum var komið fyrir í henni, einum fyrir hvert barna hennar. Þessir sex fósturvísar urðu að átta fóstrum. Ekki var vitað að Suleman gekk með áttbura fyrr en hún fæddi börnin eftir 31 viku meðgöngu.

Læknar ráðlögðu Suleman að láta fjarlægja nokkur fóstranna meðan á meðgöngunni stóð þar sem hætta var á að bæði hún og börnin yrðu fyrir skaða. Því neitaði hún.

Suleman býr með foreldrum sínum og eldri börnunum sex í tveggja herbergja íbúð í Kalíforníu. Áttburarnir eru enn á sjúkrahúsi en þeim mun heilsast vel. Er þetta í raun í fyrsta skipti, sem allir áttburar lifa meira en eina viku eftir fæðingu.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Viðvörunarbjöllur í tilfinningalífinu hringja sem mest þær mega. Nú væri gott að ræða við maka um orlof og skapandi verkefni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Viðvörunarbjöllur í tilfinningalífinu hringja sem mest þær mega. Nú væri gott að ræða við maka um orlof og skapandi verkefni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar