Eins og aðdáendur Söngvakeppni Sjónvarpsins (svo ekki sé talað um Evróvisjón) vita, er spennan einatt mest í hinu svokallaða græna herbergi þegar úrslitakvöld keppninnar fer fram. Í ár verður það í höndum Páls Óskars Hjálmtýssonar að stýra því sem þar fer fram, færa keppendum fregnir utan úr Sjónvarpssal og leita eftir viðbrögðum eftir því sem úrslit berast.
Þær Ragnhildur Steinunn og Eva María verða sem fyrr kynnar keppninnar og binda þar vonandi endahnút á vasklega framgöngu sína í þáttunum sem hefur einkennst af fagmennsku í bland við hæfilegt magn af vitleysisgangi.