Íslendingaliðið sem tekur þátt í vélsleðakeppninni The Tesoro Iron Dog Race í Alaska, varð að hætta keppni í dag. Vegna fimbulkulda varð liðið að stoppa í Galena til að lagfæra sleðana. Keppnisstjórn mat það svo að liðið næði ekki í tíma til Nome, áður en fyrstu keppendur ækju brautina til baka og bannaði því Íslendingunum að halda áfram. Fjögur af sjö liðum í flokki Íslendinganna voru stöðvuð og átta lið í atvinnumannaflokki.
Frosthörkur gerðu þátttakendum í vélsleðakeppninni erfitt fyrir í dag frostið fór niður í 60 gráður. Ef tekið er tillit til áhrifa vindkælingar mælist frostið 92 gráður á celsíus.
Hjónin Sigurjón Pétursson og Þóra Hrönn Njálsdóttir sem ræstu ásamt 83 keppendum á sunnudag, urðu að hætta keppni í dag. Þau lentu í vandræðum á leiðinni frá Ruby til Galena og þurftu að láta lagfæra sleðana í Galena en höggdeyfar hreinlega frusu fastir. Þau ákváðu að gista í Galena í nótt og ætluðu að halda förinni áfram, ásamt tveimur liðsfélögum, á morgun. Keppnisstjórn mat það hins vegar svo að þau næðu ekki í tíma til Nome, áður en fyrstu keppnislið sneru við frá Nome. Brautin er það þröng að ekki þótti á það hættandi að láta sleða aka í báðar áttir.
Þóra Hrönn flaug frá Galena til Nome en félagar hennar þrír ætla að aka á sleðunum til Fairbanks þaðan sem þeir fljúga til Nome. Þangað ættu þeir að koma eftir tvo sólarhringa.
Haft er eftir Þóru á heimasíðu þeirra hjóna að hún hafi skemmt sér konunglega en keppnin hafi verið allt öðruvísi en hún hafði ímyndað sér.