Breski tónlistarmaðurinn Peter Gabriel er hættur við að koma fram á Óskarsverðlaunahátíðinni, sem fer fram síðar í þessum mánuði. Gabriel er ósáttur við að fá aðeins 65 sekúndur til að flytja lag eftir sig, sem er tilnefnt sem besta lagið í ár, á hátíðinni.
Gabriel segir að hann hefði vonast til þess að hann fengi að flytja lagið „Down To Earth“, sem er í teiknimyndinni Wall-E, í fullri lengd. Lagið samdi Gabriel ásamt bandaríska tónskáldinu Thomas Newman.
Þrjú lög eru tilnefnd til Óskarsverðlauna í ár og þau verða flutt öll í einni lagasyrpu.
„Þetta er hálf leiðinlegt,“ segir Gabriel í myndskeiði, sem er birt á vefsíðunni hans. Hann bætir við að hann sé „gamall karlskröggur“ sem megi við því að mótmæla aðeins.