„Við reyndum að stoppa þetta í fjórgang og lögfræðideildin okkar sendi Youtube bréf. Yfirleitt er ekkert mál að stöðva svona áður en það fer að dreifast um netið en í þessu tilfelli var þetta komið of víða,“ segir Hlynur Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Latabæjar, um myndband sem gengur nú eins og eldur í sinu um netheima.
Í því má sjá lagi úr Latabæ blandað saman við lag bandaríska rapparans Lil Jon og er bæði hljóðrásinni og myndskeiðum úr Latabæ og myndbandinu við lag rapparans skeytt saman. Umrætt lag er upphaflega af plötu rapparans Snoop Dogg og heitir „Step Yo Game Up“, en Lil Jon rappar það að mestu leyti. Ekki er um neitt áhugamannamyndband að ræða heldur er augljóst að fagmenn hafa bæði komið að gerð myndbandsins og hljóðrásarinnar.
„Lil Jon er náttúrlega mjög vinsæll þannig að þetta breiddist út eins og eldur í sinu. Í sjálfu sér er þetta frekar ósmekklegt, og ekki eitthvað sem við viljum hafa,“ segir Hlynur, en ljóst er að margir hafa séð myndbandið, enda hefur Latibær fengið töluverð viðbrögð vegna þess.
„Þegar við létum loka þessu fyrst fengum við töluvert af bréfum frá unglingum sem fordæmdu að við skyldum loka þessu. Það hefur verið aldurshópur sem var einhvers staðar á milli, hafði enn gaman af Latabæ en var dottinn inn í þessa rapp-menningu líka,“ segir Hlynur og því ljóst að Latibær hefur fengið einhverja jákvæða athygli vegna myndbandsins. „En þetta er hins vegar engan veginn það sem við viljum hafa, og er hreinlega afbökun á vörumerkinu.“
„En við höfum gert allt sem í okkar valdi stendur til að loka þessu, við teljum þetta vera afbökun á okkar vörumerki, enda er þetta ekki það sem við viljum. Latibær er skrásett vörumerki og við munum standa vörð um það með öllum tiltækum ráðum.“