Nýjasta plata U2, No Line On The Horizon, kemur út í byrjun mars ef guð lofar en platan hefur verið í smíðum í rúm fjögur ár, sem mun vera met í sögu sveitarinnar.
Bandaríski upptökustjórinn Rick Rubin – sem blés eftirminnilega í glæður Johnnys Cash og Neils Diamonds – var fenginn til að stýra upptökum á plötunni en svo virðist sem sú samvinna hafi ekki gengið upp því U2 leitaði aftur í smiðjur gamalla vina, þeirra Brians Enos, Daniels Lanois og Steves Lillywhites.
Blaðamaður írska dagblaðsins The Independent fékk forskot á sæluna á dögunum og birti dóm sinn í blaðinu í gær. Segir hann sveitina hafa endurnýjað sig og það sé ekki vafi í hans huga að platan eigi eftir að slá í gegn.
Sérstaka athygli vekur að gagnrýnandinn, John Meagher, segir að upphaf lagsins „White As Snow“ minni á tónlist Sigur Rósar.