Þeir voru ansi miklir, yfirburðir bandarísku hundamyndarinnar Beverly Hills Chihuahua í íslenskum kvikmyndahúsum um helgina, enda komst engin mynd með tærnar þar sem hún hafði hælana. Þannig fóru rúmlega 4.500 manns á myndina frá föstudegi til sunnudags, og voru tekjurnar af myndinni því tæpar þrjár milljónir króna.
Eins og nafnið bendir til fjallar myndin um ævintýri Chihuahua-hunda, en fjölmargir þekktir leikarar fara með hlutverk og raddir í myndinni, svo sem Drew Barrymore, Jamie Lee Curtis, Andy Garcia og George Lopez.
The Curious Case of Benjamin Button fellur niður í annað sætið eftir að hafa vermt toppsætið í síðustu viku, en tæplega 2.000 manns sáu myndina um helgina.
Bandaríska hrollvekjan Friday the 13th stekkur beint inn í þriðja sætið, en rúmlega 1.800 manns létu hræða úr sér líftóruna um helgina. Myndin er endurgerð samnefndrar myndar frá því herrans ári 1980 og fjallar hún um einhvern óhugnanlegasta fjöldamorðingja kvikmyndasögunnar, Jason Voorhees. Fjölmargar myndir hafa verið gerðar um kappann undanfarin 29 ár, og þykja flestar þeirra arfaslakar. Einhver breyting virðist þó ætla að verða þar á því þessi nýjasta afurð hefur hlotið nokkuð sæmilega dóma, og sem dæmi fær hún 6,9 af 10 á imdb.com.