Nýsköpunarverðlaunin afhent

Í dag mun Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son, for­seti Íslands, af­henda Ný­sköp­un­ar­verðlaun for­seta Íslands á Bessa­stöðum. Verðlaun­in eru veitt þeim sem þykir hafa skarað fram úr við vinnslu verk­efna sem styrkt eru af Ný­sköp­un­ar­sjóði náms­manna. Krist­ín Heiða Krist­ins­dótt­ir spjallaði við þá fimm nem­end­ur sem til­nefnd­ir voru þetta árið til verðlaun­anna.

Bæti­bakt­erí­ur

„Ég vildi fara í sum­arstarf sem tengd­ist nám­inu mínu og sótti því um þegar ég frétti að MATÍS væri að fara af stað með þetta verk­efni í sam­starfi við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri,“ seg­ir norðan­kon­an Hug­rún Lísa Heim­is­dótt­ir sem er í líf­tækni­námi við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri.

Verk­efnið henn­ar heit­ir „Bæti­bakt­erí­ur – hin hliðin“, en það fólst í því að at­huga hvort hægt væri að finna bæti­bakt­erí­ur í lúðueldi sem síðan væri hægt að setja út í um­hverfið hjá lúðul­irf­um, í þeim til­gangi að bæta af­komu þeirra.

„Eitt af ein­kenn­um góðra bæti­bakt­ería er að hamla vexti slæmra og var það minn hlut­ur í verk­efn­inu að rann­saka þá og ýmsa aðra eig­in­leika þeirra bakt­ería sem tald­ar voru vera mögu­leg­ar bæti­bakt­erí­ur. Einnig er mik­il­vægt að hægt sé að fram­leiða mikið af hugs­an­leg­um bæti­bakt­erí­um sem hægt er að geyma með auðveld­um hætti og skoðaði ég því vaxt­ar­hamlandi áhrif bæti­bakt­erí­anna í bæði fersk­um og frostþurrkuðum rækt­um. Frostþurrk­un er þægi­leg og æski­leg leið til að geyma og flytja bakt­erí­urn­ar.“

Gott fyr­ir eldi kald­sjáv­ar­fiska

Hug­rún seg­ir að á fyrstu stig­um eld­is­fisks­ins sé hann fóðraður með dýra­svifi sem er lif­andi fóður, en því fylg­ir mik­il bakt­eríuflóra sem hef­ur áhrif á af­komu lirf­anna.

„Bæti­bakt­erí­ur virka svipað og AB-gerl­ar hjá mann­fólk­inu. Bæti­bakt­erí­urn­ar geta til dæm­is haft hamlandi áhrif á vöxt slæmu bakt­erí­anna,“ seg­ir Hug­rún sem sá al­farið um verk­efnið þó aðrir hafi verið bún­ir að ein­angra hugs­an­leg­ar bæti­bakt­erí­ur áður og prófa þær í eld­inu. „Stór­um hluta slæmu bakt­erí­anna var safnað sam­an og líka þeim sem tald­ar voru vera mögu­leg­ar bæti­bakt­erí­ur. Ég sá svo um að skoða áhrif bæti­bakt­erí­anna á slæm­ar bakt­erí­ur með því að sá þeim í ýms­ar rækt­ir á rann­sókn­ar­stofu.“

Hún seg­ir ár­ang­ur­inn hafa verið mjög góðan og að nokkr­ir stofn­ar bæti­bakt­ería hafi sýnt mögu­leg hamlandi áhrif á vöxt slæmu bakt­erí­anna. „Það væri virki­lega gam­an að rann­saka þetta enn frek­ar, því bæti­bakt­erí­ur eru ekki ein­göngu mik­il­væg­ar í lúðueldi held­ur öllu eldi kald­sjáv­ar­fiska sem eru fóðraðir með lif­andi fóðri. Þetta kem­ur því von­andi til með að nýt­ast víða.“ Hug­rún á eft­ir eitt og hálft ár í líf­tækni­námi sínu við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri og hún stefn­ir á að fara í masters­nám að því loknu.

Fæðing­ar­or­lof

Rann­veig Sig­ríður Ragn­ars­dótt­ir lýk­ur BA-námi í fé­lags­ráðgjöf við Há­skóla Íslands í vor. Verk­efni henn­ar gekk út á það að öðlast þekk­ingu og skiln­ing á aðstæðum for­eldra, sem ekki fara með sam­eig­in­lega for­sjá, til fæðing­ar­or­lofstöku.

„Guðný Björk Ey­dal dós­ent við fé­lags­ráðgjafa­deild HÍ var um­sjón­ar­maður minn í verk­efn­inu, en í meg­in­d­legri rann­sókn sem hún gerði, kom í ljós að feður sem ekki búa með börn­um sín­um, nýta síður fæðing­ar­or­lof en feður í sam­búð eða hjóna­bandi. Ég gerði síðan viðtals­rann­sókn meðal ein­stæðra for­eldra, um hvernig þeir höguðu fæðing­ar­or­lofinu. Stór hluti barna fæðist utan sam­búðar og hjóna­bands. Árið 2005 voru þau t.d. yfir 600 tals­ins.“

Fæðing­ar­or­lofs­lög­in eru þannig að for­sjár­laus­ir feður geta ekki nýtt sér fæðing­ar­or­lofið nema með samþykki barn­s­móður. Rann­veig tek­ur fram að ef faðir­inn taki ekki or­lofið, þá fær­ist það ekki yfir til móður. Rann­veig talaði við ell­efu ein­stak­linga, sex mæður og fimm feður og hún seg­ir að í ljós hafi komið að ástæður þess að feður tóku ekki fæðing­ar­or­lof hafi verið mis­jafn­ar.

„Til dæm­is lít­il sam­skipti milli for­eldra á meðgöngu, sam­bands­slit sem enduðu illa sem og áhuga­leysi föður. Í einu til­felli þekkti mjög ung­ur faðir ein­fald­lega ekki rétt sinn og í öðru til­felli neitaði móðir að skrifa upp á. Þrír af þeim fimm feðrum sem ég talaði við, nýttu sér því fæðing­ar­or­lofið.“

Einn feðranna sem Rann­veig ræddi við, tók sex mánaða fæðing­ar­or­lof en barn­s­móðir hans ætlaði ekki að nýta sína mánuði. Ann­ar faðir nýtti þrjá mánuði af sínu or­lofi og þriðji faðir­inn nýtti sitt fæðing­ar­or­lof aðeins í einn mánuð.

„Áhuga­vert er að skoða mark­mið fæðing­ar­or­lofslag­anna og hvort þau skili sér sem skyldi, því lög­in eiga að tryggja sam­vist­ir barns við bæði móður og föður. En þegar móðirin hef­ur neit­un­ar­vald í þess­um mál­um, er rétt­ur for­sjár­lausra feðra greini­lega skert­ur. Einn faðir­inn vildi til dæm­is að ut­anaðkom­andi aðili, hjá Trygg­inga­stofn­un eða Sýslu­manni, tæki ákvörðun um rétt ein­stæðra feðra til að taka or­lof, út frá mati fagaðila. Eins og lög­in eru í dag, geta mæður neitað mjög verðugum og hæf­um feðrum um að taka or­lof, sem ég tel vera brota­löm í lög­un­um. Það er nauðsyn­legt að koma á mark­vissri fjöl­skyldu- og fé­lags­ráðgjöf við verðandi for­eldra, til að hlúa bet­ur að tengsl­um þeirra með hags­muni barns­ins að leiðarljósi,“ seg­ir Rann­veig sem stefn­ir á fram­halds­nám.

Skemmd­ir á erfðaefni

„Það er mjög mik­il­vægt að átta sig á því hvernig erfðaefni manns­ins verst gegn skemmd­um, því þá get­um við skilið bet­ur mein­gerð sjúk­dóma. Mjög marg­ir sjúk­dóm­ar, til dæm­is margs kon­ar krabba­mein, byggj­ast á því að erfðaefnið skemm­ist, vegna þess að varn­ar­kerfið lask­ast. Það er senni­legt að frum­an búi yfir ein­hvers kon­ar kerfi til að draga úr skemmd­um. Verk­efni mitt gekk út á það að skilja bet­ur þetta varn­ar­kerfi gegn skemmd­um og með hvaða hætti frum­an verst því til dæm­is að verða krabba­meins­fruma,“ seg­ir Mart­in Ingi Sig­urðsson sem vann Ný­sköp­un­ar­verðlaun­in árið 2007 en hann klár­ar lækn­is­fræðina nú í vor.

„Ég hef verið að fikra mig áfram með tölvu­líkön af utangena­erfðum, en verk­efnið sem ég er til­nefnd­ur fyr­ir núna er ein­mitt á því sviði. Ég reyni að varpa ljósi á með hvaða hætti frum­an verst skemmd­um vegna erfðafræðilegs fyr­ir­bær­is sem heit­ir stökkl­ar. Stökkl­ar eru litl­ir bút­ar erfðaefn­is sem geta mögu­lega skemmt erfðaefnið og valda þannig margs kon­ar sjúk­dóm­um, sér­stak­lega mörg­um gerðum af krabba­mein­um.“

Mart­in seg­ir að varn­ar­kerfi frum­unn­ar sé mögu­lega utangena­erfðafræðilegt og bygg­ist á fyr­ir­bæri sem kall­ast DNA-metýl­un. „Ég rann­sakaði þetta á lífupp­lýs­inga­fræðileg­an hátt, með því að búa til lík­an af DNA-metýl­un erfðaefn­is­ins. Jafn­framt er ég með upp­lýs­ing­ar um hvar í erfðaefn­inu er mikið af stökk­breyt­ing­um, sem geta mögu­lega valdið skemmd­um. Síðan kortlagði ég þetta allt sam­an með til­liti til fyrr­nefndra stökkla. Ein af stærstu stökkla­fjöl­skyld­un­um og sú sem er einna lík­leg­ust til að valda skemmd­um á erfðaefn­inu, reynd­ist vera með mjög lítið af metýl­un. Það merk­ir að annaðhvort hef­ur þessi stökkla­fjöl­skylda brotið niður þetta varn­ar­kerfi og er þá virk þar sem lítið er af metýl­un, eða að varn­ar­kerfið er upp­byggt með ein­hverj­um öðrum hætti. Þetta varp­ar semsagt nán­ara ljósi á það hvernig varn­ar­kerfi manns­ins er og hvernig stökkl­arn­ir geta mögu­lega sigrað varn­ar­kerfi frumn­anna,“ seg­ir Mart­in sem vinn­ur nú að doktor­s­verk­efni og ætl­ar í sér­nám í lyflækn­ing­um eða barna­lækn­ing­um.

Göngu­herm­ir fyr­ir fatlaða

„Hug­mynd­in að verk­efn­inu kviknaði hjá Þjóðbjörgu Guðjóns­dótt­ur barna­sjúkraþjálf­ara og lektor við Há­skóla Íslands, í starfi henn­ar með hreyfi­hömluðum börn­um og ung­menn­um. Hún ásamt Karli S. Guðmunds­syni og Fjólu Jóns­dótt­ur, dós­ent­um við verk­fræðisvið Há­skóla Íslands, óskaði eft­ir nem­end­um í þetta verk­efni og við gáf­um kost á okk­ur. Verk­efnið gekk út á hug­mynda­vinnu að sér­hönnuðu tæki, svo­kölluðum „Stri­de Simulator“ eða göngu­hermi, sem ætlaður er fyr­ir al­var­lega hreyfi­hömluð börn.“

Hreyfiþjálf­un skipt­ir miklu

Jóna Guðný seg­ir tækið vera hugsað þannig að börn­in séu fest í það, þannig að þau standi upp­rétt, og svo fram­kall­ar tækið ákveðna hreyf­ingu á fót­um þeirra, hreyf­ingu sem lík­ir eft­ir eðli­legri göngu.

„Þau börn sem göngu­herm­ir­inn er hugsaður fyr­ir eru al­veg bund­in í hjóla­stól og fá því litla sem enga hreyf­ingu dags­dag­lega. Sú hreyfiþjálf­un sem herm­ir­inn myndi veita, gæti skipt miklu máli til að auka beinþéttni barn­anna sem iðulega er mjög lít­il, auka þroska mjaðmaliða og bæta blóðflæði svo eitt­hvað sé nefnt. Hug­mynd­in er sú að börn­in geti haft tækið á leik­skól­an­um, í grunn­skól­an­um eða jafn­vel heima hjá sér, þannig að hægt sé að flétta notk­un þess inn í dag­legt líf barn­anna.“

Jóna Guðný bæt­ir við að tæki sem þetta hafi ekki verið til á markaðnum til þessa og hún voni að í fram­hald­inu verði hægt að koma því í fram­leiðslu.

Jóna Guðný seg­ir starf sjúkraþjálf­ara vera mjög skemmti­legt og gef­andi. Hún stefn­ir á fram­halds­nám og seg­ir ekki ólík­legt að það muni tengj­ast sjúkraþjálf­un barna.

Líf­rænt eldsneyti úr sorpi

„Ný­sköp­un­ar­verk­efnið mitt í sum­ar gekk út á það að nota hitakær­ar gerj­andi bakt­erí­ur til að búa til end­ur­nýj­an­legt eldsneyti (lífet­anól), úr hrá­efni sem til fell­ur á Íslandi í dag. Til­gang­ur verk­efn­is­ins var að kanna fram­leiðslu á end­ur­nýj­an­leg­um orku­gjafa, et­anóli, með hitakær­um bakt­erí­um. Notaðar voru bakt­erí­ur sem hafa verið ein­angraðar úr ís­lensk­um hver­um og ódýr líf­massi á borð við dag­blaðapapp­ír, gras og sag, sem fell­ur til sem úr­gang­ur á Íslandi.“

Líf­mass­inn var formeðhöndlaður með hita, ensím­um og sýru til þess að brjóta hann niður og koma á það form sem bakt­erí­ur ráða við að gerja í et­anól. „Blönd­urn­ar voru síðan sett­ar í mis­mikl­um styrk í bakt­eríuæti og sjö mis­mun­andi stofn­ar úr stofna­safni Há­skól­ans á Ak­ur­eyri látn­ir gerja. Niður­stöður leiddu í ljós að einn stofn var af­ger­andi best­ur og mest et­an­ólfram­leiðsla fékkst úr papp­ír.“

Máney seg­ir að rann­sókn­ir á þessu sviði séu mjög mik­il­væg­ar í dag. „Nú þegar hef­ur Evr­ópu­banda­lagið sett reglu­gerðir sem miða að því að á næsta ári eigi hlut­fall end­ur­nýj­an­legs eldsneyt­is að vera 5,75% af heild­ar­eldsneyti sem notað er, og fyr­ir árið 2020 skuli þetta vera 10%. Við Íslend­ing­ar stönd­um frammi fyr­ir því að þurfa annaðhvort að flytja þetta inn eða vera sjálf­bær með þessa fram­leiðslu úr ís­lensku hrá­efni. Ef niðurstaðan verður sú að hér sé hægt að nota hitakær­ar bakt­erí­ur til þess að fram­leiða líf­rænt eldsneyti úr úr­gangi er ljóst að það eru mikl­ir hags­mun­ir fyr­ir Ísland. Meðal ann­ars yrðum við minna háð jarðefna­eldsneyti og flutn­ings­kostnaður á því mun minnka. Ljóst er að auka þarf þekk­ingu á þessu sviði hér á landi veru­lega.“

Um verðlaun­in
Ný­sköp­un­ar­verðlaun­in eru veitt ár­lega þeim náms­mönn­um sem hafa unnið framúrsk­ar­andi starf við úr­lausn verk­efn­is sem styrkt var af Ný­sköp­un­ar­sjóði náms­manna. Verðlaun­in voru fyrst veitt í árs­byrj­un 1996 og eru því veitt nú í fjór­tánda sinn. For­seti Íslands, Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son af­hend­ir verðlaun­in við hátíðlega at­höfn á Bessa­stöðum.

Um Ný­sköp­un­ar­sjóð náms­manna
Ný­sköp­un­ar­sjóður náms­manna var  stofnaður árið 1992. Mark­mið hans er að gefa há­skól­um, rann­sókn­ar­stofn­un­um og fyr­ir­tækj­um tæki­færi til að ráða há­skóla­nema í grunn- og meist­ara­námi til sum­ar­vinnu að rann­sókn­ar- og þró­un­ar­verk­efn­um sem stuðla að ný­sköp­un og aukn­um tengsl­um at­vinnu­lífs, stofn­anna og há­skóla. Styrkj­um er út­hlutað til kenn­ara á há­skóla­stigi, fyr­ir­tækja, rann­sókna­stofn­ana eða ein­stak­linga sem telj­ast hafa sérþekk­ingu á ákveðnu sviði, sem og há­skóla­nema. Ný­sköp­un­ar­verk­efn­in eru gíf­ur­lega fjöl­breytt og fer vinn­an fram í öll­um lands­hlut­um.

Alls bár­ust 195 um­sókn­ir fyr­ir sum­arið 2008, en ákveðið var að styrkja 87 þeirra. Að verk­efn­un­um störfuðu 99 nem­end­ur í sam­tals 224 mann­mánuði.

Árið 2008 var sjóður­inn fjár­magnaður með fram­lög­um frá ríki, Reykja­vík­ur­borg,Fram­leiðni­sjóði land­búnaðar­ins, Ak­ur­eyr­ar­bæ, Garðabæ og Kópa­vogs­bæ.  

Sjóður­inn styrk­ist milli ára
Reykja­vík­ur­borg hækkaði fram­lag sitt til Ný­sköp­un­ar­sjóðs náms­manna úr 12 í 20 millj­ón­ir fyr­ir styr­kárið 2009. Heild­ar­fjármagn sjóðsins árið 2009 er því nærri fjórðungi hærra en árið 2008 (alls rúm­lega 40 millj­ón­ir króna). Vegna þess at­vinnu­ástands sem blas­ir við náms­mönn­um er um­sjón­ar­mönn­um sjóðsins mikið gleðiefni að geta styrkt fleiri verk­efni í sum­ar en í fyrra. Einnig hef­ur orðið sú breyt­ing frá því í fyrra að há­skóla­nem­um í bæði grunn- og meist­ara­námi er heim­ilt að sækja um styrki úr sjóðnum.

Um­sókn­ar­frest­ur fyr­ir styr­kárið 2009 er mánu­dag­ur­inn 9. mars, kl. 16.

Verðlaun­in í ár
Ný­sköp­un­ar­sjóður og Rann­sóknamiðstöð Íslands (Rannís) gefa verðlaun­in í ár. Verðlauna­grip­irn­ir eru sér­hannaðir af Jónasi Braga glerl­ista­manni.

Dóm­nefnd­in
Sér­stök dóm­nefnd valdi verk­efn­in fimm sem til­nefnd eru. Í dóm­nefnd­inni áttu sæti: Rósa Gunn­ars­dótt­ir, formaður (til­nefnd af mennta­málaráðuneyti), Davíð Lúðvíks­son (til­nefnd­ur af Sam­tök­um iðnaðar­ins), Kári Hólm­ar Ragn­ars­son (til­nefnd­ur af Stúd­entaráði Há­skóla Íslands), Sig­urður Snæv­arr (til­nefnd­ur af Reykja­vík­ur­borg) og Hall­grím­ur Jónas­son (til­nefnd­ur af Rann­sóknamiðstöð Íslands).

Hugrún Lísa Heimisdóttir
Hug­rún Lísa Heim­is­dótt­ir
Rannveig Sigríður Ragnarsdóttir
Rann­veig Sig­ríður Ragn­ars­dótt­ir
Martin Ingi Sigurðsson
Mart­in Ingi Sig­urðsson
Jóna Guðný Arthúrsdóttir
Jóna Guðný Arth­úrs­dótt­ir
Máney Sveinsdóttir
Máney Sveins­dótt­ir
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Fiskar

Sign icon Öll samskipti þín við aðra verða hlý og notaleg í dag. Gættu þess að tala ekki of mikið og sýndu öðrum tillitssemi og skilning. Fólk nálgast þig til að fá að vita leyndarmálið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sebastian Richel­sen
2
Lone Theils
3
Lotta Lux­en­burg
4
Guðrún J. Magnús­dótt­ir
5
Jón­ína Leós­dótt­ir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Fiskar

Sign icon Öll samskipti þín við aðra verða hlý og notaleg í dag. Gættu þess að tala ekki of mikið og sýndu öðrum tillitssemi og skilning. Fólk nálgast þig til að fá að vita leyndarmálið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sebastian Richel­sen
2
Lone Theils
3
Lotta Lux­en­burg
4
Guðrún J. Magnús­dótt­ir
5
Jón­ína Leós­dótt­ir