Djassgítarleikarinn Jón Páll Bjarnason lenti í leiðinlegu atviki á dögunum þegar sjaldgæfum magnara hans var stolið úr bíl hans.
„Ég var uppi í Lágmúla að spila snóker á stofu þar, svo þegar ég kom út var magnarinn horfinn úr bílnum,“ segir Jón Páll. „Það var smárifa á rúðunni farþegamegin, þannig að einhver hefur teygt sig inn í bílinn og búmm...magnarinn farinn! Hann var spenntur á kerru með gítarstatífi og sú eining var einnig tekin.“
Magnarinn er stór hluti af einkennandi hljómi Jóns Páls og því súrt að missa hann. Jón segist hafa fengið svipaðan magnara að láni hjá félaga sínum og neyðist til þess að kaupa nýjan, eins, ef sá gamli kemur ekki í leitirnar. En það er hægara sagt en gert. „Hann heitir Polytone Mini Brute IV og er aðallega notaður í djass. Það eru til örfá stykki hér á landi.“