Traustatak það sem hljómsveitin Dúndurfréttir hefur á öndvegisverkum Pink Floyd hefur vakið aðdáun margra og er svo komið að Floyd-þyrstir utan landsteina hafa sælst eftir þessum kröftum. Þannig er hljómsveitin nú stödd hjá bræðrum vorum og systrum í Færeyjum og mun flytja The Wall á þrennum tónleikum í Norræna húsinu.
Pétur Örn Guðmundsson söngvari, „Pétur Jesú“, var hinn kátasti þegar blaðamaður sló á þráðinn til hans og var auðheyranlega kominn í mikinn Færeyjagír, ástand sem margir Frónbúar þekkja vel.
„Þetta er dásamlegt,“ segir hrærður Pétur. „Við erum að koma hingað í fyrsta skipti og erum satt að segja snortnir. Verst að við komumst ekki fyrr út en við lendum á þriðjudag.“
„En annars höfum við bara verið að æfa þetta með sinfóníusveitinni,“ segir Pétur. „Það voru víst fluttir hingað spilarar frá Danmörku sérstaklega vegna tónleikanna þannig að tilstandið er mikið. Það er gríðarleg stemning fyrir tónleikunum og allir alveg óskaplega glaðir með þetta.“
Pétur á þá vart til orð til að lýsa sjálfu húsinu, en Norræna húsið í Færeyjum er stórt að vöxtum og sérdeilis vel heppnað sem tónleikahús. Arkitektúrinn sækir þá á vissan hátt í forna tíma.
„Þetta er nokkurs konar túrbó-torfkofi,“ segir Pétur og hlær að sjálfum sér. „Ef fjármálavæðingin hefði átt sér stað á landnámsöld en ekki í dag hefðu híbýli fornmanna litið svona út!“
„Það er undarlegt að vera í fyrsta skipti frá stærri þjóð,“ segir Pétur hugsi. „Maður hefur vanist því að vera frá litla Íslandi. Fólkið hérna er yndislegt, ég verð bara að segja það. Talar meira að segja við mann á íslensku ef því er að skipta. Þeir hafa greinilega samsamað sig öllu því besta sem þrífst á Norðurlöndum og sneitt frá öllum daunillum dreggjum. Hvað get ég sagt: Hér vil ég vera!“
Pétur segir blaðamanni að það sé nokkuð ljóst að þetta verði ekki síðasta heimsókn sveitarinnar til eyjanna.
„Við vorum að renna í gegnum settið í gær og við litum hvor á annan og lyftum upp handleggjunum til að sýna hvor öðrum gæsahúðina. Þetta er þannig efni að það er ekki annað hægt. Þegar við bætist snilldarleg útsetning Halla (Haraldar Vignis Sveinbjörnssonar) og heil sinfóníusveit er ekki að spyrja að því. Ég græt karlmannlegum gráti yfir fegurðinni – og er stoltur af því!“
Dúndurfréttir fluttu fyrst The Wall á hljómleikum sumarið 2007 en áður höfðu þeir leikið The Dark Side of the Moon við góðan orðstír. Pétur segir að þá hafi alltaf langað til að fara með Vegginn víðar og Færeyjar hafi verið eyrnamerktar fyrir slíkt í október í fyrra. Kreppan setti strik í þann reikning en það var svo Bernard Wilkinson, sem hefur stjórnað verkinu á tónleikum, sem greiddi götuna en hann er með annan fótinn í eyjunum.