Plötunni No Line On The Horizon, nýjustu hljóðversskífu írsku rokkhljómsveitarinnar U2, hefur verið lekið á netið, um viku fyrir formlegan útgáfudag hennar.
Er lekinn rakinn til þess að platan hafi fyrir mistök verið vistuð sem stafræn færsla á netinu af hálfu starfsmanna Universal Music Australia, Ástralíudeildar útgáfufyrirtækis sveitarinnar.
Raunar hefur platan áður lekið á netið því síðasta sumar var söngvarinn Bono grandalaus að spila hana í hæstu hæðum í sumarhúsi sínu á meðan forvitinn gestur tók hana upp utandyra.
Aðdáendum sveitarinnar er farið að lengja í gripinn sem var tekinn upp að hluta í Marokkó.
Platan kemur út mánudaginn 2. mars í Evrópu og svo daginn eftir í Bandaríkjunum.
Platan, sem inniheldur 11 lög, mun koma út í nokkrum útgáfum.