Kvikmyndin Slumdog Millionaire er talin sigurstranglegust fyrir Óskarsverðlaunahátíðina sem fram fer í Hollywood í kvöld. Verið er að leggja lokahönd á undirbúning fyrir hátíðina.
Þetta verður í 81. sinn sem hin eftirsóttu Óskarsverðlaun verða veitt. Búið er að ryksuga rauða dregilinn og búið er að loka götum umhverfis Kodak leikhúsið í kvikmyndaborginni Hollywood, enda innan við sólarhringur þar til veislan hefst.
Mestar væntingar eru í kring um Slumdog Millionaire en kvikmyndin hefur rakað til sín verðlaunum á kvikmyndahátíðum undanfarið. Flestir veðja því á að myndin fái styttuna fyrir bestu kvikmynd ársins, jafnvel þótt kvikmyndin The Curious Case of Benjamin Button hafi fengið flestar tilnefningar, eða 13 talsins.
Slumdog Millionaire fjallar um vegferð indversks pilt frá fátækt til ríkidæmis en eftir að hafa alist upp í fátæktarhverfum Mumbai endar hann með því að vinna milljónir í spurningakeppni í sjónvarpi og sameinast ástinni sinni. Kvikmyndasérfræðingar hafa líkt ferli myndarinnar við sögu aðalpersónunnar: framleiðslukostnaður hennar var „aðeins“ 15 milljónir dollara (um 1,7 milljarð króna) sem þykir víst lítið vestanhafs, myndin skartar óþekktum leikurum og er textuð að hluta, sem Bandaríkjamönnum þykir ljóður. Ekki munaði miklu að myndin yrði eingöngu gefin út á mynddiskum í Bandaríkjunum í fyrra en það hefði útilokað myndina frá keppninni um Óskarinn.
Sem fyrr segir keppir myndin við The Curious Case of Benjamin Button um verðlaunin fyrir bestu kvikmyndina sem og við myndirnar Frost/Nixon, Milk og The Reader. Hvað önnur verðlaun varðar veðja flestir á að Sean Penn hljóti Óskarinn fyrir besta leik í karlhlutverki fyrir hlutverk sitt í myndinni Milk þar sem hann leikur samkynhneigðan stjórnmálamann. Margir telja þó að Mickey Rourke væri ekki síður vel að verðlaununum kominn fyrir leik sinn í myndinni The Wrestler.
Kate Winslet er hins vegar talin sigurstranglegust þegar kemur að aðalhlutverkum kvenna fyrir frammistöðu sína í kvikmyndinni The Reader þar sem hún leikur vörð í útrýmingarbúðum nasista. Hennar helstu keppinautar eru Meryl Streep og Melissa Leo.
Þegar kemur að verðlaunum fyrir besta karlhlutverk í aukahlutverki veðja flestir á að hinn sálugi Heath Ledger hreppi styttuna fyrir hlutverk sitt sem Jókerinn í Batman myndinni The Dark Knight. Rætist þær spár verður ástralski leikarinn annar í sögunni til að hljóta Óskarinn eftir andlát sitt. Penelope Cruz er hins vegar talin sigurstranglegust í flokki leikkvenna í aukahlutverki fyrir leik sinn í grínmynd Woody Allens Vikcky Cristina Barcelona.
Skipuleggjendur hátíðarinnar hafa lofað nýrri umgjörð um hátíðina í ár en með því er talið að þeir séu að reyna að auka áhorf á hana á ný eftir að verðlaunahátíðin í fyrra fékk versta áhorf sögunnar. M.a. hafa þeir haldið því leyndu hver verða kynnar hátíðarinnar í því skyni að byggja upp spennu í kring um hana.
Í gær fór hins vegar fram hin alræmda Razzie hátíð þar sem veitt eru verðlaun fyrir verstu kvikmyndir liðins árs. Þar hlaut kanadíski grínleikarinn Mike Myers þrjú verðlaun fyrir kvikmyndina The Love Guru auk þess sem Paris Hilton var veitt þrjú verðlaun.