Það er nú varla hægt að halda því fram að Íslendingar séu í miklum Óskarsverðlaunagír þessa dagana ef marka má lista yfir tekjuhæstu kvikmyndir helgarinnar.
Í fyrsta sæti er að finna gamanmyndina He's Just Not That Into You en reikna má með að meirihluti þeirra tæplega 5.000 bíógesta sem sóttu kvikmyndina um helgina hafi verið kvenkyns. Myndin skaust beint á toppinn og hafði um 1.000 miða forskot á næstu mynd, Beverly Hills Chihuahua sem var víst ekki tilnefnd til Óskarsverðlaunanna sem veitt voru á sunnudag. Í þriðja sæti er hins vegar að finna sigurvegara þeirrar hátíðar, Slumdog Millionaire. Myndin sigraði í átta af þeim ellefu verðlaunaflokkum sem hún var tilnefnd í og rúmlega 24 þúsund Íslendingar hafa nú séð myndina. Reikna má með að aðsóknin aukist í kjölfar árangursins vestra.
Þar fyrir neðan er svo að finna aðra Óskarsverðlaunamynd, The Curious Case of Benjamin Button, sem Brad Pitt leikur í en myndin hlaut þrenn verðlaun í fyrradag þar á meðal fyrir bestu tæknibrellurnar. Tæplega 10 þúsund manns hafa séð myndina sem margir hafa líkt við Forrest Gump.
Fríður flokkur leikara kemur að myndinni. Steve Martin er svo staddur í sjötta sæti í annarri mynd sinni sem rannsóknarlögreglumaðurinn Clouseau. Myndin var frumsýnd um helgina og fékk rúmlega milljón í aðgangseyri. Þá má benda á að Óskarsverðlaunamyndin Milk kemst ekki inn á topp 10 listann.