Eftirlætis flugvöllur Hitlers verður hugsanlega vettvangur tónleika í tilefni þess að fjörutíu ár eru liðin frá því að Woodstock-tónleikarnir voru haldnir í Bandaríkjunum. Breska blaðið Guardian greindi frá þessu í gær og benti á táknræna þversögn í staðarvalinu um leið, því hugsjónin um frið var auðvitað á allra vörum árið 1969 á Woodstock.
Hugmyndin er sú að tvennir tónleikar verði haldnir, aðrir í New York og hinir í Berlín dagana 15. og 16. ágúst vestanhafs en 22. og 23 ágúst í Þýskalandi. Vangaveltur eru um að tónleikarnir í Berlín verði á Tempelhofflugvelli, sem tekinn var formlega úr notkun í október á síðasta ári.
Skipuleggjendurnir Michael Lang og félagar hans vonast til þess að fá jafnmarga áhorfendur inn á þessa viðburði og sóttu upprunalegu hátíðina fyrir fjórum áratugum. Einnig stendur hugur þeirra til að reyna að fá sem flesta af þeim tónlistarmönnum sem þá tóku þátt til að endurtaka leikinn, m.a. Who, Grateful Dead, Neil Young og Santana.