Eins og sagt hefur verið frá var Facebook-síða stofnuð fyrir stuttu með það að markmiði að koma U2 til Íslands. Þúsundir hafa skráð sig með því vilyrði að kaupa miða í forsölu. Þá verða U2-heiðrunartónleikar haldnir á NASA nú á laugardaginn, m.a. til að afla fjár fyrir þessum innflutningi.
Ragnheiður Hanson tónleikahaldari segir það miður að þessi starfsemi sé kominn svona langt á veg þar sem það sé útilokað að sveitin komi hingað til lands í bráð.
„Ég er í mikilli og góðri samvinnu við sveitina,“ segir Ragnheiður. „Það er búið að bóka túrinn þeirra og það var gert fyrir áramót og þeir bæta engu við. Það er ástæðan fyrir því að þeir koma ekki. Mér fannst ekki rétt að taka þá inn eins og staðan er í dag og þeir hafa okkur í huga í næstu ferð sem verður eftir tvö ár.“
Róbert Heimir Halldórsson, forsvarsmaður „þrýstihópsins“ á Facebook, segir það rétt hjá Ragnheiði að fullseint hafi verið í rassinn gripið. En það sé ekki svo að það sé verið að ginna fólk til fjárútláta á vafasömum forsendum.
„Við erum brött og þetta er bara orðið að lengra verkefni,“ segir hann.
„Við höfum ekki tekið við peningum frá neinum þar sem málin voru einfaldlega ekki komin á það stig. Við erum sömuleiðis í tengslum við fólk í innsta hring U2 og það veit af þessari vinnu okkar. Hér er allt uppi á borðum og við munum halda áfram að vinna í því að fá sveitina til landsins í góðu samstarfi við fagaðila. Við getum vel beðið í tvö ár enn.“