Liðsmenn írsku hljómsveitarinnar U2 eru staddir í Bandaríkjunum um þessar mundir þar sem þeir eru að fylgja eftir útgáfu sinnar nýjustu plötu, No Line On The Horizon.
Sveitin hefur verið mjög áberandi vestanhafs í vikunni, og sem dæmi má nefna að þeir koma fram í spjallþætti Davids Lettermans öll kvöld vikunnar. Michael Bloomberg, borgarstjóri New York-borgar, bætti svo um betur á þriðjudaginn þegar hann nefndi götu á Manhattan eftir sveitinni, en næstu vikuna mun hluti 53. strætis heita U2 Way.
„Bítlarnir höfðu Penny Lane, Elvis bjó við endann á Lonely Street,“ sagði Bono, söngvari U2, þegar hið nýja nafn götunnar var afhjúpað.
„Þetta er fallegur dagur, svo ég vitni nú í fræga írska hljómsveit,“ sagði borgarstjórinn við sama tilefni.